Rifti ráðningasamningi eftir hótanir barnsföður

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að riftun ráðningarsamningi væri heimil …
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að riftun ráðningarsamningi væri heimil vegna brota konunnar og stöðunnar eftir hótanir barnsföðurs hennar. mbl.is/Þorsteinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað 13,3 milljón króna kröfu konu sem sagt upp störfum hjá fyrirtæki einu í kjölfar þess að barnsfaðir hennar hótaði öðrum starfsmanni fyrirtækisins líkamsmeiðingum ef hann greiddi ekki „sekt“ vegna máls sem áður hafði komið upp á milli konunnar og samstarfsmannsins.

Atvik í starfsmannagleðskap og samskiptasamningur

Upphaf málsins má rekja til ársins 2019, en þá kom upp atvik í gleðskap starfsmanna í heimahúsi. Í kjölfarið lét konan yfirmann vita að hún teldi sig hafa orðið fyrir áreitni af hálfu samstarfsmannsins og var þá leitað til fagaðila vegna þessa. Ræddi ráðgjafi við báða aðila og leiddi það til þess að gerður var samskiptasamningur á milli fyrirtækisins og starfsmannanna beggja.

Í samningnum kom m.a. fram að báðir aðilar vilji leggja sitt af mörkum til þess að geta átt eðlileg samskipti á vinnustaðnum. Eigi samskiptin að vera hreinskilin og til þess gerð að skapa gagnkvæmt traust. Jafnframt var tekið fram að umrætt atvik, sáttafundurinn og samkomulagið sé málefni starfsmannanna og „ekki öðrum á vinnustaðnum né öðrum viðkomandi (að undanskildum framkvæmdastjóra sem er nú þegar upplýstur um málið)“.

Málið í góðum farvegi þegar hótanir fóru að berast

Í rúmlega ár eftir samkomulagið hafði ekkert óvænt komið upp í samskiptum samstarfsfólksins og vitnuðu þau bæði um það fyrir dómi. Sögðu þau jafnframt að málið hafi verið í góðum farvegi og ekki hafi orðið vart við óánægju milli fólksins.

Þetta breyttist hins vegar þrettán mánuðum eftir gerð samkomulagsins þegar barnsfaðir konunnar sendi samstarfsmanni konunnar hótun um líkamsmeiðingu ef „sektin“ yrði ekki greidd. Í niðurstöðu dómsins segir að þar hafi hann sent hótanirnar eftir að málið taldist lokið.

Hótaði eiginkonu, börnum og foreldrum líkamsmeiðingum

Samstarfsmaðurinn lét forráðamann fyrirtækisins vita af hótunum og boðaði hann konuna á fund til að fara yfir stöðuna. Nokkrum klukkustundum síðar bárust enn frekari hótanir til samstarfsmannsins frá barnsföðurnum. Leit forráðamaður fyrirtækisins þá svo á að hótanirnar væru þess eðlis að konan hefði veitt barnsföður sínum trúnaðarupplýsingar af fundinum til viðbótar við að hafa á sínum tíma upplýst hann um samskiptasamninginn sem trúnaður var um.

Í seinni skilaboðum barnsföðurins var auk þess að finna hótanir um líkamsmeiðingar gagnvart fjölskyldu samstarfsmanns konunnar, eiginkonu hans, börnum og foreldrum.

Ákvað forráðamaður fyrirtækisins að rifta ráðningarsamningi við konuna og gera henni grein fyrir að ástæða riftunarinnar væri að hún hefði ekki staðið við sáttasamkomulagið sem hún hafði gert. Sagði forráðamaðurinn fyrir dómi að viðbótarhótunin hefði ekki aðeins sett samstarfsmanninn í enn meiri hættu en áður, heldur einnig starfsemi fyrirtækisins. Á þeirri stundu hefði hann talið að ekki kæmi til greina að konan starfaði áfram í ljósi alvarleika hótananna.

Ljóst að konan upplýsti barnsföðurinn um samkomulagið og efni fundar

Í niðurstöðu dómsins segir að leggja verði til grundvallar að konan hafi upplýst barnsföður sinn um samkomulagið og síðar fundinn með forráðamanninum. Þá hafi engin trúverðug skýring komið af hálfu konunnar af hverju hótanirnar hófu að berast skyndilega á þessum tíma. Með því að ræða málið við barnsföður sinn segir dómurinn að hún beri ábyrgð á því að barnsfaðirinn hafi byrjað að senda hótanirnar, en sérstaklega er tekið fram að ekki sé fullyrt um hvort henni hafi verið kunnugt um efni þeirra.

Telur dómurinn að í ljósi þeirrar stöðu sem hafi verið komin upp og í ljósi alvarleika hótana með hliðsjón af brotum konunnar, þá hafi verið komin upp svo alvarleg staða í starfsemi fyrirtækisins að heimilt hafi verið að rifta ráðningarsamningnum.

Er því hafnað kröfu konunnar um miska- og skaðabætur í málinu og fyrirtækið sýknað af öllum kröfum. Dómurinn ákvað jafnframt að fella málskostnað niður, en gjafsóknarkostnaður upp á 1,3 milljónir greiðist úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert