Segir sýn Bjarna einfaldaða mynd af samfélaginu

Kristrún Frostadóttir segir aðstæður á vinnumarkaði taka mið af þeim …
Kristrún Frostadóttir segir aðstæður á vinnumarkaði taka mið af þeim heimi sem ríkisstjórnin teikni upp, af stöðunni á húsnæðismarkaðnum og stöðunni í velferðarkerfinu. Ljósmynd/Aðsend

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist „algjörlega ósammála“ Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, en ummæli hans frá un að vinnumarkaðurinn sé vandamálið í kjaraviðræðum hefur fallið í grýttan jarðveg.

„Í grunninn er ég ósammála honum að þessi sýn hans að það sé hægt að afhólfa samfélagið svona. Að það sé bara eitt sem ríkisstjórnin gerir, annað sem vinnumarkaðurinn gerir og eitthvað þriðja sem að atvinnurekendur gera, er mjög einfölduð mynd af því hvernig samfélagið okkar er rekið,“ segir Kristrún.

Hún segir aðstæður á vinnumarkaði taka mið af þeim heimi sem ríkisstjórnin teikni upp, af stöðunni á húsnæðismarkaðnum og stöðunni í velferðarkerfinu.

„Ef við værum í sterkari stöðu í þessari grunnþjónustu væri ekki svona viðkvæm staða á vinnumarkaði. Þess vegna finnst mér mjög óábyrgt af fjármálaráðherra að algjörlega stimpla sig út úr þessari umræðu strax í haust þegar hann sagði að væri ekki hlutverk ríkisstjórnar að koma að kjaraviðræðum, og síðan núna að skella skuldinni á vinnumarkaðinn.

Að vera að ýfa upp þennan ágreining með þessum hætti finnst mér mjög óábyrgt á svona viðkvæmum tíma,“ segir Kristrún.

Ríkisstjórnin beri ábyrgð á stöðunni á vinnumarkaði

Spurð um hækkun stýrivaxta á miðvikudaginn bendir Kristrún á stóra samhengið.

„Mér finnst það ekki mega gleymast það samhengi að sú staða sem er komin upp á vinnumarkaði er staða sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á,“ segir Kristrún og segir þetta bæði eiga við til skamms og langs tíma. 

„Sú ólga sem hefur birst okkur á vinnumarkaði undanfarið á rætur sínar að rekja til þess að það eru komnir gífurlegir veikleikar mjög víða í velferðarkerfið okkar. Við erum með ríkisstjórn sem hefur lítið gert í þeim málum. Húsnæðismarkaðurinn hefur verið í ólestri og heilbrigðismálin vanfjármögnuð. Við erum að ganga inn í mjög erfitt tímabil núna þar sem við fáum mikla verðbólgu, miklar húsnæðisverðshækkanir og kjararýrnun út af þessu öllu saman,“ segir Kristrún.

„Ríkisstjórnin mætir til að mynda í haust með fjárlög sem taka ekki mið af veruleika venjulegs fólks. Ég held að þau hafi skapað óþarfa spennu með svona veikum fjárlögum farandi inn í haustið. Það var farið í almennar gjaldskrárhækkanir í staðin fyrir að líta til skattstofna sem mikið svigrúm er.

Við erum að koma út úr ástandi þar sem fjármagnstekjur hafa verið í hæstu hæðum og tekjur í sjávarútvegi og verðmæti líka á meðan heimili, fjölskyldufólk og lágtekjufólk er að lenda í verulegum kjaravanda og það hefur lítið sem ekkert komið í sértækum  aðgerðum til þessara hópa á móti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert