Ekki merki um aukna skriðuhættu

Óvissustigi vegna skriðuhættu var lýst yfir á miðvikudaginn.
Óvissustigi vegna skriðuhættu var lýst yfir á miðvikudaginn. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Sveinn Brynjólfsson á ofanflóðavakt hjá Veðurstofu Íslands segir stöðuna á Austfjörðum vera óbreytta en óvissustigi vegna skriðuhættu var lýst yfir í landshlutanum á miðvikudag.

Í samtali við mbl.is segir hann stöðuna vera svipaða og hún hefur verið síðustu daga og verði það líklega fram á morgundag að minnsta kosti. Þá séu ekki merki um að skriðuhætta sé að færast í aukana.

„Það sést hreyfing þarna á litlu svæði í skriðusárinu stóra frá árinu 2020 í Búðarhrygg [fyrir ofan Seyðisfjörð]. Það er hreyfing í honum og það sést á mælingum en það er búið að vera það dálítið mikið síðan að stóra skriðan féll, brattur hryggur sem er að jafna sig og að leka niður svolítið,“ segir Sveinn.

„Sú virkni eykst alltaf þegar búið er að rigna svona mikið eins og búið er að gera undanfarið.“

Rignir talsvert fram á kvöld

Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofunni segir að seint í dag byrji að rigna og að það muni rigna talsvert um tíma fram á kvöld en það standi ekki lengi yfir.

„Það verður úrkomulítið í nótt. Á morgun kemur annað kerfi sem gengur yfir. Við erum að spá 30 millimetrum á Seyðisfirði næsta sólarhringinn sem þætti ekkert tiltökumál nema því það er búið að rigna svo mikið,“ segir Helga.

„Það eru áframhaldandi austlægar áttir í vikunni með úrkomu af og til þannig það halda áfram hlýindi og úrkoma með köflum fyrir austan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert