Harma unglingasamkomu í veislusal félagsins

Í dagbók lögreglu segir að töluvert mikil ölvun hafi verið …
Í dagbók lögreglu segir að töluvert mikil ölvun hafi verið á staðnum. Ljósmynd/Jón Svavarsson

Íþróttafélagið Grótta harmar að veislusalur í íþróttamiðstöðinni hafi verið notaður undir samkvæmi ungmenna í gær sem ekki höfðu aldur til neyslu áfengis.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að leigutakinn, sem hafi verið 23 ára, hafi talið starfsfólki trú um að hann hafi ætlað að halda samkvæmi fyrir sig og vini sína sem öll væru eldri en 20 ára. Grótta hefur atvikið nú til skoðunar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæði leysti í gær upp samkvæmi í veislusal Gróttu. Í dagbók lögreglu kemur fram að mikill fjöldi fólks undir tvítugu hafi verið að skemmta sér og að töluvert mikil ölvun hafi verið á staðnum. Voru einstaklingarnir flestir á aldrinum 16 til 17 ára.

Sá sem leigði salinn var 23 ára

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að einstaklingurinn sem leigði salinn hafi verið 23 ára en Grótta leggi sig fram við að leigja salinn aldrei út til framhaldsskólanema eða annarra ungmenna sem ætla sér að halda slík samkvæmi.

Sá sem leigði salinn hafi talið starfsfólki trú um að hann væri að halda samkvæmi fyrir sig og sína vini sem væru öll eldri en 20 ára. Það hafi síðan reynst rangt og hefur leigjandinn gerst sekur um brot á skilmálum samningsins.

Brugðist trausti bæjarbúa

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem félagið lendir í því að leigutaki veitir rangar upplýsingar en í tilkynningunni segir að félagið hafi lagt sig fram við að fyrirbyggja atvik sem þetta m.a. með því að hækka aldur þeirra sem mega leigja út.

„Nú leitast félagið við að styrkja og breyta verklagi til þess að fyrirbyggja að svona atvik komi upp. Nú þegar hefur verið ákveðið að starfsmaður félagsins gangi úr skugga um að ekki séu ungmenni að koma til samkvæmisins þegar það hefst og stöðva þá veisluna áður en hún fer af stað.

Við sem vinnum fyrir Gróttu, bæði starfsmenn og sjálfboðaliðar, hörmum að þetta hafi gerst enda upplifum við að hafa brugðist trausti bæjarbúa. Það er það síðasta sem við viljum og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að fyrirbyggja að atvik sem þetta endurtaki sig,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is