Krefja Gróttu um breytta og bætta starfshætti

Foreldrafélagið krefst breyttra starfshátta.
Foreldrafélagið krefst breyttra starfshátta.

Stjórn foreldrafélags Grunnskóla Seltjarnarness krefst þess að stjórn íþróttafélagsins Gróttu taki upp breytta og bætta starfshætti. Þá segir félagið ástand æskulýðsmála á Seltjarnarnesi vera ólíðandi.

Eins og greint hefur verið frá leysti lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu upp sam­kvæmi í sal Gróttu í gær. Fjöldi ungs fólks und­ir tví­tugu, á aldr­in­um 16 til 17 ára, var að skemmta sér í salnum og var tölu­verð ölv­un á staðnum.

Grótta hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu þar sem atvikið er harmað.

Vilja standa vörð um ungmennin

„Við fögnum því að fréttir af atviki gærkvöldsins hafi knúið fyrirsvarsmenn Gróttu til aðgerða og ábyrgðar. Við krefjumst þess að nú verði teknir upp breyttir og bættir starfshættir.

Við munum halda áfram að standa vörð um ungmennin okkar og fylgja þessu máli eftir þar til gripið hefur verið til alvöru aðgerða,“ segir í yfirlýsingu foreldrafélagins á Facebook-síðu Seltjarnarnesbúa.

Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni hér að neðan.

Skjáskot/Facebook
mbl.is