Lögreglan kannast ekki við vopnaburð á bjórkvöldi

Enginn situr í fangageymslu lögreglu í tengslum við bjórkvöld á …
Enginn situr í fangageymslu lögreglu í tengslum við bjórkvöld á Seltjarnarnesi í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Gunnarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekkert hafi verið bókað um grímuklædda menn vopnaða hnífum á bjórkvöldi á Seltjarnarnesi í gærkvöldi.

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu leysti í gær upp sam­kvæmi á Seltjarn­ar­nes­inu þar sem mik­ill fjöldi ungs fólks und­ir tví­tugu, á aldr­in­um 16 til 17 ára, var að skemmta sér og var tölu­vert mik­il ölv­un á staðnum, að því er fram kem­ur í dag­bók lög­reglu.

Vísir greindi frá því að nokkrir grímuklæddir eintaklingar hafi mætt á samkomuna vopnaðir hnífum og töldu þeir sig eiga eitt­hvað óupp­gert við einn mennta­skóla­nem­ann sem þar var stadd­ur. Vísir segist vera með myndband undir höndunum sem sýnir á annan tug lögreglumanna á svæðinu.

Uppfært klukkan 10.20: Vísir hefur nú uppfært frétt sína og í athugasemd ritstjórnar segir að upplýsingar sem Vísir taldi eftir heimildum sínum í fyrri útgáfu fréttarinnar hvað grímur og hnífa varðar, hafi reynst rangar.

Ég veit ekki hvaðan í ósköpum þessi frétt er komin“

„Ég er nú búinn að skoða dagbók lögreglunnar eftir að hafa séð þessa frétt hjá Vísi og hafði samband inn í fangageymslu, varðstjórann þar, og það er bara ekkert skráð. Ég veit ekki hvaðan í ósköpum þessi frétt er komin. Ekki ætla ég mönnum að vera búa til eitthvað,“ segir Helgi.

Hann segir engan vistaðann í fangageymslum sem tengjast þessu atviki og ekkert hafi verið minnst á hnífa tengdum atvikinu.

„Ég er búinn að kanna þetta og lúslas dagbókina frá þessari skemmtun þarna á Seltjarnarnesi og þetta voru bara unglingar að skemmta sér og það fór aðeins úr böndunum eins og gerist og gengur hjá krökkum sem drekka aðeins yfir sig,“ segir Helgi.

Er þetta þá ekkert tengt árásinni á Bankastræti Club?

„Nei nei,“ segir Helgi og endurtekur að þetta hafi einfaldlega verið samkvæmi ungmenna sem hafi verið leyst upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert