Mósebókin fyrir hlé – „á la carte“ eftir hlé

Öll lög hinnar tíu ára plötu verða spiluð fyrir hlé …
Öll lög hinnar tíu ára plötu verða spiluð fyrir hlé og aðrir gimsteinar sveitarinnar eftir hlé. mbl.is/Ari Páll

Breiðskífan Önnur Mósebók, eftir hljómsveitina Moses Hightower, fagnaði á dögunum tíu ára afmæli og ætlar því hljómsveitin að tjalda öllu til í dag, laugardag, í Norðurljósasal Hörpu á tvennum glæsilegum tónleikum. Verða þeir bræður síðan á Græna hattinum fyrir norðan á morgun.

Þeir Steingrímur Teague, Andri Ólafsson og Magnús Tryggvason Eliassen, þrír stofnmeðlima Moses Hightower, voru galvaskir og nýbúnir að leggja hljóðfærin frá sér er blaðamann bar að garði í æfingarými í Rauðagerðinu, þar sem Félag íslenskra hljómlistamanna er til húsa.

Lúðrasveit og læti

Kváðust þeir allir þrír spenntir fyrir stóra deginum, þar sem öll lög hinnar tíu ára plötu verða spiluð fyrir hlé og aðrir nýrri slagarar sveitarinnar eftir hlé.

„Það kannski dregur úr ákveðinni spennu að fólk viti hvaða lög koma, en við spilum þau kannski bara í óvæntri röð þá bara,“ gantast Steingrímur.

Búast má við lúðrasveit og látum í Norðurljósum – og verða þar sömu blásarar og á upprunalegu plötunni.

„Fyrst, þegar við vorum við bara með eina plötu þá …
„Fyrst, þegar við vorum við bara með eina plötu þá þurftum við aðeins að teygja lopann. Nú getum við bara bætt inn, á la carte og stýrt hvað fer á tónleika,“ sagði Steini Tegue (t.h.) um tónleikana. mbl.is/Ari Páll

„Síðan verður Danni, upprunalegi gítarleikarinn sem samdi plötuna með okkur, fyrir hlé að spila Mósebókarlögin,“ segir Steini og á þar við Daníel Friðrik Böðvarsson.

„Rögnvaldur sem hefur verið að spila með okkur síðan Danni hætti verður síðan með okkur eftir hlé. Ákveðin gítarveisla.“ Tekur Andri undir það en auk þess slæst Magnús Jóhann Ragnarsson með í för sem hefur spilað á hljóðgervla með sveitinni síðustu fimm ár.

Gimsteinar rifjaðir upp

Strákarnir, sem hafa spilað lengi saman og þekkja spilamennsku hvors annars út og inn, segjast þó hafa þurft að rifja upp nokkra gamla gimsteina.

„Sum sem voru alveg með uppáhalds lögunum okkar.“ Maggi tekur undir. „Já, sum sem við lögðum aðeins til hliðar. Við spiluðum til dæmis Margt á manninn lagt mikið á konsertum, svo af einhverjum ástæðum lúffaði það.“

Platan seldist í tonnavís á sínum tíma og var komin í gull eftir þrjú ár. Segjast þeir ekki hafa gert ráð fyrir slíkri velgengni endilega.

Fyrsta platan sveitarinnar: Búum til börn hafði vissulega gert það gott en sveitin sprakk algjörlega út þegar Mósebókin leit dagsins ljós tveimur árum síðar.

Uppselt er á tónleikana kl. 21 en enn eru lausir …
Uppselt er á tónleikana kl. 21 en enn eru lausir miðar á fyrri tónleikana klukkan. 18. mbl.is/Árni Sæberg

„Skrítnari og skrítnari lög“

„Í fyrstu vorum við náttúrulega að reyna að klára bara eitthvað, verða alvöru hljómsveit,“ segir Steini. Á annarri plötunni hófst síðan ákveðin vegferð sem hefur einkennt sveitina síðan.

„Hún var alltaf að fara að vera töluvert skrítnari en sú fyrsta, við ákváðum síðan að vera ekkert að pæla í því. Að við myndum bara elta það sem virtist vera að skapast og vera ekkert að streitast á móti því.“

Hafa lögin staðist tímans tönn?

Þögn. „Já, þau hafa gert það. Mér finnst það,“ segir Maggi og brýtur ísinn. „Platan seldist auðvitað mjög vel og síðan eru lög, ekki síst Tíu dropar, sem malla ágætlega í algórithmanum,“ bætir Andri við en platan er með á fjórða milljón spilana á Spotify.

En hvað hefur breyst á þessum tíu árum?

„Við hrukkumst og þykknum og baugarnir dýpka,“ segir Andri léttur. „Og semjum skrítnari og skrítnari lög,“ segir Steini og hlær.

Segir Andri að hafi verið það „passlega aktífir“ síðan að platan kom út, að þeir hafi ekki neyðst til þess að fylgja einhverjum „trendum“ eða vinsælum straumum í tónlist.

Moses Hightower. Frá vinstri: Andri Ólafsson, Magnús Jóhann Ragnarsson, Rögnvaldur …
Moses Hightower. Frá vinstri: Andri Ólafsson, Magnús Jóhann Ragnarsson, Rögnvaldur Borgþórsson, Steingrímur Teague og Magnús Tryggvason Eliassen. Ljósmynd/Moses Hightower

„Þannig höfum við bara gert músíkina fyrir okkur og erum þá ekkert að pæla of mikið í þróuninni,“ segir hann. Steini tekur undir:

„Já, bara treysta því að það séu einhverjir þarna úti sem finnst þetta jafn skemmtilegt.“

Bæta inn, „á la carte“

Strákarnir eru sammála því að nú geti þeir valið allra bestu lögin, úr þónokkrum.

„Fyrst, þegar við vorum við bara með eina plötu þá þurftum við aðeins að teygja lopann. Nú getum við bara bætt inn, á la carte og stýrt hvað fer á tónleika,“

Maggi getur ekki annað en bent á orðaval félaga síns. „À la carte. Mjög góð lýsing. Ég sé þig bara fyrir mér með einhverja kokkahúfu: „smá fjallaloft hér, mósebók hér og dass af lyftutónlist“.“

Fyrst við erum farnir að tala um mat, hvernig mynduð þið lýsa plötunni?

„Bara svolítið eins og pizzan sem við vorum að borða,“ segir Andri og vitnar í að platan hafi verið tiltölulega fljótafgreidd í stóra samhenginu, samanborið við þá næstu sem tók fimm ár að gera.

„Já, svona satay,“ segir Steini.

„Eitthvað alveg sérstakt“

Aðspurðir segjast félagarnir með öllu óvíst hvort þeir munu koma til með að halda 10 ára afmælistónleika fyrir næstu tvær plötur sem komu á eftir; Fjallaloft og Lyftutónlist.

„Ætli við viljum ekki fyrst halda útgáfutónleika fyrir Lyftutónlist,“ segir Steini en platan kom út árið 2020, það háa herrans ár, þegar heimsfaraldurinn reið yfir.

Spurðir hvað annað þeir bræður séu síðan með í eldinum segjast þeir alltaf með fjölbreytt verkefni í smíðum.

Önnur Mósebók seldist vel þegar hún kom út árið 2012.
Önnur Mósebók seldist vel þegar hún kom út árið 2012.

„Við erum allir með alls kyns hliðarverkefni ýmist undir eigin nafni eða öðru, svo erum eru auðvitað hugmyndir að gerjast,“ segir Andri.

„Við höfum verið að vinna mikið saman, þetta mengi af fólki. Sem er ekki endilega undir Moses-nafninu,“ bætir Steini við en sjálfur gaf hann út djassplötu í sumar auk þess sem hann og Andri vinna mikið saman með öðru djasstónlistarfólki.

„Og Maggi spilar víst líka í einhverjum öðrum hljómsveitum,“ gantast hann en sem dæmi er Maggi meðal annars í sveitunum ADHD og Amiinu.

„Við finnum það líka að við spilum mjög vel saman. Það er eitthvað alveg sérstakt.“

Afmælistónleikarnir eru í Norðurljósasal klukkan 18 og 21 í dag. Uppselt er á tónleikana kl. 21 en enn eru lausir miðar á fyrri tónleikana klukkan. 18. Nálgast má miða hér.

Haldið út í geim. Strákarnir eru með mörg járn í …
Haldið út í geim. Strákarnir eru með mörg járn í eldinum en vinna alltaf jafn vel saman. mbl.is/Ari Páll
mbl.is