Bítlarnir og snjallsíminn

Valur Gunnarsson spyr stórt svo sem sagnfræðinga er siður. Hvað …
Valur Gunnarsson spyr stórt svo sem sagnfræðinga er siður. Hvað ef Norðurlöndin hefðu sameinast? Ljósmynd/Tatiana Takáčová

„Bókin heitir sem sagt Hvað ef? og tekur fyrir fimmtán sögulegar spurningar, allt frá hvað ef Rómaveldi hefði ekki fallið til hvað ef Al Gore hefði unnið kosningarnar,“ segir Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, bókmenntafræðingur og rithöfundur, sem greinilega hefur grafið upp svör við fjölbreyttu rófi spurninga í bók sinni.

Auk vangaveltna um stærstu atburði og örlagatímabil mannkynssögunnar, svo sem Adolf Hitler og hvar heimsbyggðin væri stödd hefði hans veldi ekki lokið keppni vorið 1945, tekur Valur einnig fyrir séríslenskar spurningar. Fjallar ein þeirra um Jörund hundadagakonung og hver staðan væri ef allt hefði farið á annan veg með hann, eða ef gerð hefði verið bylting á Íslandi, ef ekki hefði orðið hrun og fleira. Allt góðar og gildar sagnfræðispurningar.

Við rannsóknir í Úkraínu

Síðustu tvær bækur Vals gengu vel að hans sögn, „en þetta er náttúrulega alltaf hark, ég skrifa greinar líka og núna er ég að vinna rannsóknarverkefni fyrir Sverri Jakobsson [sagnfræðing] um uppruna Úkraínu, stórt verkefni sem snýst um víkinga,“ segir Valur og er einmitt tiltölulega snúinn heim frá Úkraínu, nú stríðshrjáðu ríki.

„Áhugi minn á Úkraínu hefur leitt af sér ýmislegt, Úkraínumenn hafa ekki alltaf stjórnað eigin örlögum,“ segir Valur sem einnig var við rannsóknir í landinu árið 2020. Hann lokaðist þá inni þar í veirufaraldrinum eftirminnilega og var þá að skrifa bók sína Bjarmalönd. Skoðaði Valur þar uppruna Úkraínu og þótti mjög athyglisvert.

„Úkraínumenn eru einmitt núna að skapa sér sína þjóðarvitund, þeir hafa auðvitað verið að því í mörg hundruð ár eins og fleiri en hún er samt í stöðugri mótun einmitt núna. Þeir stóðu dálítið í stað eftir fall Sovétríkjanna og þar til 2014 en þá fer allt af stað hjá þeim, þeir fara að rífa niður allar styttur af Lenín og leggja meiri áherslu á sérstöðu sína gagnvart Rússlandi. Það byrjaði kannski ekki þá en þá eykst það til muna,“ útskýrir sagnfræðingurinn.

Ekkert eitt svar

Þjóðarsál Úkraínumanna byggist á ákveðnum þjóðarmýtum, rétt eins og Íslendingar líti á sig sem sjálfstæða víkinga og smákonunga frá Noregi samkvæmt hefðinni. „Að sama skapi líta Úkraínumenn á sig sem frjálsa kósakka. Kósakkar voru bændur sem neituðu að heyra undir pólska eða rússneska landeigendur og stofnuðu sitt eigið fríríki á 17. öld sem var lýðræðislegt á vissan hátt, leiðtogar voru kosnir og allir fengu að segja sína skoðun og svo var bara deilt um niðurstöðuna,“ segir Valur.

Kemst hann að niðurstöðu um þær spurningar sem hann varpar fram í Hvað ef?

„Já, ég velti upp nokkrum möguleikum í hverju svari og vísa líka í aðra sem hafa spurt sömu spurninga. Eðli málsins samkvæmt er ekkert eitt svar við hverri spurningu en maður teygir þræðina áfram í ýmsar áttir,“ svarar Valur.

Markhópinn segir hann býsna fjölmennan, alla sem hafa snefil af áhuga á einhverri mannkynssögu eða jafnvel Bítlunum. Bókin byggi í raun á óreiðukenningunni svokölluðu og þeirri hugmynd að mannkynssagan sé ekki bara þungur straumur sem ryðjist áfram heldur afleiðing af gjörðum mannanna á hverjum tíma. „Við erum öll að móta söguna með einhverjum hætti, framtíðin er ekki bara eitthvað sem gerist heldur afleiðing af því sem við gerum í dag.“

Bítlalaus heimur?

Fáein dæmi i viðbót um spurningar Vals: Hvað ef Bandaríkin hefðu ekki orðið til? Hvað ef Norðurlöndin hefðu sameinast? Hvað ef engar heimsstyrjaldir hefðu orðið? Hvað ef Bítlarnir hefðu ekki orðið til?

Við stöldrum við þá síðastnefndu, blaðamanni flýgur í hug að Bítlalaus heimur hefði varla verið stórvægileg mannkynssöguspurning, rokksagan hefði vissulega verið gjörbreytt og hún er auðvitað mannkynssaga. Og hvað þá ef þeir hefðu ekki orðið til?

„Ég skoðaði stöðuna 1963 í Bandaríkjunum, fyrir komu Bítlanna þangað,“ svarar Valur, „og ungt fólk í Bandaríkjunum á þeim tíma var rosalega mikið að hlusta á þjóðlagatónlist og svona pólitíska listamenn eins og Dylan, Joan Baez og Pete Seeger og fleiri. En með tilkomu Bítlanna hverfur þetta eiginlega alveg af vinsældarlistunum og við taka breskar gítargrúppur og meira að segja Dylan sjálfur fer að spila gítarrokk til að ná til nýs hóps,“ útskýrir Valur.

Hann segir að hefðu Bítlarnir ekki komið til mætti ímynda sér að þessi þjóðlagamenning hefði haldið áfram að dafna. Bandarískur ungdómur hefði þá ef að líkum lætur orðið mun pólitískari en raunin varð og hefði að lokum getað haft þau merkisáhrif að Richard Nixon hefði ekki orðið forseti árið 1968.

„Ég rek þarna líka, undir þessari spurningu, hvað hlutirnir geta haft ófyrirséð áhrif. Steve Jobs [stofnandi Apple] var rosalega mikill Bítlaaðdáandi og dreymdi um að verða eins og Bítlarnir. Hann fór að læra á gítar þótt hann gerði það ekki vel. Hann fór til Indlands eins og Bítlarnir, hann droppaði sýru eins og Bítlarnir og hann stofnaði fyrirtæki sem heitir Apple eins og Bítlarnir. Þannig að ef Bítlarnir hefðu ekki samið Love Me Do þá værum við kannski ekki öll með snjallsíma í vasanum í dag,“ segir Valur af sagnfræðikenningum sem aldrei bar á góma við grunn- eða framhaldsskólanám blaðamanns.

Í þessu riti er ýmsu svarað, eða mögulegum svörum að …
Í þessu riti er ýmsu svarað, eða mögulegum svörum að minnsta kosti velt upp. Ljósmynd/Salka

En hvað tekur við nú að þessu verkefni loknu, bókin komin í hillurnar, hvað er næst?

„Það hefur nú alltaf verið í annarra manna höndum að miklu leyti og veltur meðal annars á ritlaunanefnd. Ég er með aðra bók í smíðum um Úkraínu, bæði um uppruna landsins og núverandi ástand,“ segir Valur Gunnarsson sagnfræðigrúskari undir lok viðtals.

Bjarmalönd fjallaði um Sovétríkin og eftirmála þeirra en í næstu bók hvílir fókusinn að fullu á Úkraínu. Hann segist vonast til að geta farið þangað sem fyrst og að komandi bók geti fjallað um enduruppbyggingu, frið og hvað taki við að núverandi hörmungarástandi afstöðnu. Hvað ef?

mbl.is