Nokkrir skemmtistaðir lokuðu fyrr í gær

Skemmtanalífið var heldur rólegt í gær.
Skemmtanalífið var heldur rólegt í gær. mbl.is/Ari

Næturlífið í miðborginni var með rólegra móti í gærkvöldi líkt og á föstudaginn. Nokkrir staðir lokuðu fyrr og skemmti fólk sér almennt vel, að sögn Helga Gunnarssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta gekk allt vel,“ segir Helgi en bætir við að líklega hafi þó fleiri verið mættir í gær en á föstudaginn.

Mikill viðbúnaður lögreglu hefur verið í miðborginni frá því á fimmtudaginn í þarsíðustu viku eftir að hópur grímuklæddra manna réðst inn á Bankastræti Club og veittist að þremur mönnum með eggvopnum. Hátt í 30 hafa verið handtekin en megninu af fólkinu hefur verið sleppt úr haldi.

Ekkert ræst úr hótunum

Í dagbók lögreglu þar sem farið er yfir verkefni næturinnar og gærkvöldsins kemur fram að talsverður erill hafi verið hjá lögreglu í nótt. Að sögn Helga voru engin verkefnin þó tengd átökum milli hópanna sem tengjast árásinni á Bankastræti. 

Það virðist því ekki hafa ræst úr hótununum í skilaboðunum sem voru í dreifingu á samfélagsmiðlum fyrir helgi.

Aukinn viðbúnaður lögreglu verður þó áfram í kvöld en að sögn Helga verður staðan metin eftir helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert