Veganismi varð að satanisma

Veganismi varð að satanisma hjá Stofnun Árna Magnússonar fyrir mistök.
Veganismi varð að satanisma hjá Stofnun Árna Magnússonar fyrir mistök. Samsett mynd

Mannleg mistök ollu því að veganismi beygðist óvart sem satanismi í þolfalli, þágufalli og eignarfalli á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN), gagnagrunns sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur úti.

Kristín Ingibjörg Hlynsdóttir, aðstoðarritstjóri BÍN, segir villuna ansi óheppilega, sérstaklega í ljósi þess að grænmetisætur og grænkerar þurfi oft að þola gagnrýni fyrir að borða ekki dýraafurðir.

Beygingin á veganisma vakti fyrst athygli inni á Málspjallinu, hóps á Facebook þar sem rætt er um íslenskt mál. Kristín sá færsluna á innan við tuttugu mínútum og lagaði villuna undir eins. Í spjalli við mbl.is segir Kristín að um mannleg mistök sé að ræða. 

„Þetta er bara ótrúleg villa. Þetta er bara yfirsjón. Á einum stað er inni mynd úr öðru orði og kerfið framleiðir beygingarmyndir út frá upplýsingum sem ég mata það á. Það býr svo til beygingarmynd sem á alls ekki að vera þarna,“ segir Kristín.

Ljósmynd/Facebook

„Ótrúlega leiðinlegt“

Sem fyrr segir lagaði Kristín villuna um leið og segist hafa verið mjög hissa þegar hún sá þetta. „Mér finnst þetta ótrúlega leiðinlegt. Ég er sjálf grænmetisæta og þekki vel það öráreiti sem fylgir því að vera grænmetisæta eða vegan,“ segir Kristín. Orðið kom inn fyrir aðeins nokkrum vikum og því hafði þessi ranga beyging ekki verið lengi inni í gagnagrunninum. 

Hún segir að svona atvik gerist næstum því aldrei. Hún hafi farið vel yfir kerfið og fullvissað sig um að fleiri villur hefðu ekki slæðst inn á síðustu vikum. Hún segist aðeins muna eftir einu öðru dæmi þar sem beyging á orði var á villigötum. Það var orðið öræfi, sem beygðist þá öræfi, öræfi, bindindum, bindinda. Þá var um sambærilega villu að ræða, kerfið bjó til beygingar sem byggðu á röngum upplýsingum. 

mbl.is