200 krónur á mann í varaflugvallagjald

Um er að ræða alla farþega í millilandaflugi.
Um er að ræða alla farþega í millilandaflugi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hver farþegi í millilandaflugi á Íslandi þarf að greiða 200 krónur í svokallað varaflugvallagjald verði nýtt frumvarp til laga, um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð, að lögum.

Drög að frumvarpinu hafa verið lögð fram til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Í þeim má sjá að hið svonefnda varaflugvallagjald á að skila stjórnvöldum 1.200-1.500 milljónum króna ár hvert ef gert er ráð fyrir því að um sex milljónir farþega greiði gjaldið.

Þessar upphæðir gætu þó orðið enn hærri þar sem farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir allt að átta milljónum farþega um Keflavíkurflugvöll árið 2024.

Kostar hátt í milljarð

Í greinargerð frumvarpsins segir að þessar tekjur muni renna í frekari uppbyggingu flugvallanna á Egilsstöðum og Akureyri en það sé nauðsynlegt svo þeir geti talist fullnægjandi varaflugvellir fyrir alþjóðaflug.

„Ef horft er á Egilsstaðaflugvöll þá má gera ráð fyrir að árlegur kostnaður vegna þarfa millilandaflugsins verði um 608 milljónir króna. Á Akureyrarflugvelli er kostnaðurinn hins vegar áætlaður 345 milljónir króna árlega. ... Með innheimtu varaflugvallargjalds verður fjármögnun innanlandsflugvalla tryggð,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is