Borgarstarfsmenn á ráðstefnu í Kaupmannahöfn

Skrifstofur Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14.
Skrifstofur Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 20 starfsmenn Reykjavíkurborgar frá ýmsum sviðum, aðallega þeir sem koma að innkaupum, sóttu ráðstefnu um opinber innkaup í Kaupmannahöfn í síðustu viku.

„Hópur starfsmanna sótti um svokallaðan stofnanastyrk til ferðarinnar, sem að stéttarfélögin veita til opinberra stofnanna,“ segir Karen María Jónsdóttir, skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstjóra á þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar, í skriflegu svari til mbl.is.

„Ríki og sveitarfélögin greiða fyrir hvern starfsmann í stéttarfélögin til þess að halda úti svokölluðum starfsþróunarstyrkjum en ákvæði um starfsþróun og símenntun starfsmanna, sem eiga þá kost á fræðslu til að auka við þekkingu sína og faglega hæfni, er bundið í kjarasamninga.“

Samnorrænir fundir um innkaupatilskipanir

Fulltrúar frá Isavia, Landsvirkjun og frá opinberum stofnunum ríkisins sóttu einnig ráðstefnuna, sem ber heitið Nordic Public Procurement Forum 2022.

„Við eins og aðrir opinberir aðilar höfum um árabil tekið virkan þátt í samnorrænum fundum um innkaupatilskipanir Evrópusambandsins, þar sem farið er yfir er túlkun ákvæða tilskipananna og framkvæmd þeirra. Þarna var m.a. rætt hvernig verið er að uppfæra Evrópulöggjöfina og gera umhverfisvæn innkaup að skyldu fyrir opinbera aðila, hvernig við stuðlum að heilbrigðum markaði, kynntar voru nýjar formúlur til útreikninga á niðurstöðum útboða og fleira,“ segir í svari skrifstofustjórans.

„Þetta er mikilvægasta ráðstefnan af þessu tagi þar sem helstu sérfræðingar í opinberum innkaupum koma saman á Norðurlöndunum. Ráðstefnan er að jafnaði haldin á haustin og þar eru helstu sérfræðingar Evrópu með fyrirlestra og vinnustofur og ráðstefnugestir víðs vegar frá bera saman bækur sínar.“

mbl.is