Ekki við störf eftir að hafa lekið upptökunni

Upptöku af myndskeiði af árásinni var lekið og rataði hún …
Upptöku af myndskeiði af árásinni var lekið og rataði hún í fjölmiðla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem lak upptöku af myndskeiði sem sýndi stungurárásina á Bankastræti Club fyrr í mánuðinum, er ekki við störf sem stendur. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is en embætti hans rannsakaði lekann. RÚV greindi fyrst frá.

„Þetta mál er upplýst, rannsókninni lauk á föstudaginn og sá sem lét þetta frá sér upphaflega er ekki við störf,“ segir Ólafur

Spurður hvort viðkomandi hafi verið sendur í leyfi eða vikið varanlega úr starfi, vísaði hann til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, hvernig því yrði háttað.

„Það er alla vega búið að gera einhverjar ráðstafanir.“

Ekki ætlunin að myndbandið birtist í fjölmiðlum

Nokkrir voru yfirheyrðir vegna málsins, að sögn Ólafs. Hann vildi ekki segja til um hve margir voru eða hvort fleiri en einn hefði legið undir grun.

„Það liggur fyrir þegar upp er staðið hvernig þetta hefur allt saman atvikast.“

Spurður hvað viðkomandi gekk til með því að leka myndskeiðinu segir hann það liggja fyrir í málinu, en hann geti ekki farið nánar út í það. Ætlunin hafi þó ekki verið að myndbandið birtist í fjölmiðlum.

„Það sem við sjáum út úr því, hjá þeim sem lætur þetta frá sér upphaflega, að það hafi ekki verið hugmyndin að þetta færi í fjölmiðla. En auðvitað þegar menn eru búnir að láta þetta frá sér þá hafa þeir enga stjórn á því lengur hvað verður um þetta,“ segir Ólafur.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is eftir að lekinn kom í ljós að það yrði skoðað hve mikið hann gæti haft áhrif á rannsóknina og eftir atvikum sett strik í reikninginn. Hann vildi í dag ekki tjá sig um það hvort starfsmanninum sem lak myndskeiðinu hefði verið vikið úr starfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina