Hægt að sækja um dvöl í húsi Ólafs Ragnars

Ólafur Ragnar Grímsson, ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, og …
Ólafur Ragnar Grímsson, ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ljósmynd/Hringborð Norðurslóða

Vísindamenn, sérfræðingar og fræðafólk getur sótt um að dvelja á æskuheimili Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta og stjórnarformanns Hringborðs Norðurslóða, á Ísafirði sem faðir hans reisti árið 1930. Gestunum verður boðið að vera þar í tvær til sex vikur í senn en áformað er að tveir til fjórir fræðimenn dvelji í húsinu á hverju ári.

Um er að ræða verkefni sem tengist alþjóðlegu fræðaneti, Fræðradvöl í Grímshúsi, sem stofnun Ólafs Ragnars stendur að baki og verður rekið í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og fleiri aðra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hringborði Norðurslóða.

Frá málþinginu sem hófst áðan.
Frá málþinginu sem hófst áðan. Ljósmynd/Hringborð Norðurslóða

Hátt í 50 manns sækja nú málþing sem hófst fyrr í dag í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði þar sem stofnun Ólafs Ragnars ýtir alþjóðlega fræðanetinu úr vör. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði málþingið en Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðar, Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Hringborðs Norðurslóða og Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða, fluttu einnig ávörp.

Sérstök valnefnd skoðar umsóknirnar

Erlendir og íslenskir sérfræðingar á sviðum Norðurslóða, loftslagsmála, umhverfisfræða, náttúrufræða, félagsvísinda, heilbrigðisvísinda, hreinnar orku, sagnfræði og öðrum greinum og á öðrum sviðum geta sótt um að dvelja í húsi Ólafs Ragnars á grundvelli alþjóðlegra auglýsinga. Sérstök valnefnd mun fara yfir og meta umsóknir til dvalarinnar.

Ólafur Ragnar flytur ávarp.
Ólafur Ragnar flytur ávarp. Ljósmynd/Hringborð Norðurslóða

Skrifstofa Hringborðs Norðurslóða – Arctic Circle mun fyrst um sinn annast rekstur fræðanetsins í samvinnu við stjórn Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar. Líftæknifyrirtækið Kerecis sem upprunið er á Ísafirði mun veita styrki til uppihalds og Háskólasetur Vestfjarða sérstaka starfsaðstöðu.

Áskilið verður að fræðimennirnir haldi fyrirlestur eða taki þátt í sérstökum samræðufundum; ýmist á Ísafirði eða við háskólana í Reykjavík og Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert