Læknirinn fékk þrjá mánuði en sýknaður að stærstum hluta

Héraðsdómur Vestfjarða
Héraðsdómur Vestfjarða Ljósmynd/Bæjarins besta

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamlegt og andlegt ofbeldi gagnvart þremur dætrum sínum yfir nokkurra ára tímabil. Hann var hins vegar sýknaður að lang stærstum hluta um ofbeldi gagnvart eiginkonu sinni og barnsmóður, en í ákæru var hann sagður hafa hótað henni lífláti, beitt hana ofbeldi og þvingað hana til athafna, eins og að þrífa hús þegar hún var fótbrotin.

Málið var til umfjöllunar í fjölmiðlum fyrr á árinu, en maðurinn er læknismenntaður og hefur starfað sem læknir bæði á Vestfjörðum og á Húsavík.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að fólkið hafi kynnst fyrir tæplega áratug síðan og eignast þrjár dætur, en þau voru upphaflega búsett erlendis. Málið fór af stað eftir að konan mætti á lögreglustöð og greindi frá ofbeldi sem hún sagði hafa staðið yfir um margra ára skeið gegn henni og dætrunum.

Hafnaði flestum ásökunum um brot

Maðurinn sagði málið hins vegar í grunninn vera tálmunarmál og að eftir 5 ára sambúð hafi sigið á ógæfuhliðina í sambúðinni og lýsti hann neikvæðni konunnar í garð fjölskyldu sinnar og skapsveiflum. Þá hafi hún einnig kastað í hann hlutum og að í einu tilfelli sem hann var ákærður fyrir ofbeldi hafi hún í raun ráðist á hann en ekki öfugt.

Þá sagði hann jafnframt að eftir erfið samskipti konunnar við fjölskylduna hafi hann viðrað hugmynd um skilnað, en ekkert hafi orðið að því. Hafi hún hótað honum að ef til skilnaðar kæmi fengi hann ekki að sjá börnin og hún myndi ljúga upp á hann ofbeldi. Þau hafi svo flutt til Íslands og síðar hafi hann farið fram á skilnað og í kjölfarið hafi hún lagt fram kæruna.

Hafnaði hann flestum brotum sem ákært var fyrir, en viðurkenndi þó hluta atriða sem tengdust málum dætranna, þó hann teldi það ekki hafa verið brot, sem og hluta atvika sem tengdust eiginkonunni, en þó aðallega í tengslum við kynlífsathafnir. Í þeim tilfellum taldi hann einnig að ekki væri um brot að ræða.

Dæturnar lýstu föður sínum sem vondum manni

Fyrir dómi lýstu dæturnar meðal annars föður sínum sem vondum manni sem hafi læst þær inni, öskrað á þær og læst þær inni í litlu herbergi. Þá hafi hann einnig slegið þær á fingurna. Lýstu þær streitu og vanlíðan sem fékkst staðfest hjá sérfræðingum fyrir dómi. Ein dóttirin sagði þó að móðirin hefði sagt sér „pinkulítið“ hvað hún ætti að segja fyrir dóminum.

Vinir þeirra hjóna báru einnig vitni og sögðu einhverjir að konan hefði lýst ofbeldi og þvingunum við sig í samtölum árin á undan. Þá konan jafnframt upplýst vinkonu sína um erfiðleika strax árið 2016. Fjölskylda mannsins lýsti hins vegar reiðiköstum konunnar.

Sýknaður í átta af níu liðum sem tengdust eiginkonunni

Samtals var ákært í níu liðum fyrir ofbeldi gagnvart konunni og segir í dóminum að í nánast öllum tilfellum sé framburður vitna í öllum aðalatriðum byggður á endursögn konunnar eða mannsins. Engin geti því borið til um einstök tilvik sem ákært er fyrir.

Er maðurinn sýknaður beint vegna átta þessara atriða, en í einu tilfellinu þóttu nægar sannanir fyrir því að hann hafi tekið hana kyrkingartaki og þrengt að öndunarvegi. Hins vegar þótti ekki sannað að hann hafi í framhaldinu hent henni í gólfið, þrýst hné í maga hennar og hótað lífláti. Í öllum öðrum atriðum tengt konunni er maðurinn sýknaður, annað hvort vegna skorts á sönnunum og að þau séu ein til frásagnar. Varðandi meint atriði um ofbeldi í kynlífi er hann hins vegar sýknaður þar sem talið var að gagnkvæmt samþykki lægi fyrir.

Eina atriðið sem hann var talinn hafa framið að mati dómsins átti sér hins vegar stað árið 2014 og var það fellt undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en við slíkum brotum liggja sektir eða allt að sex mánaða fangelsi. Hins vegar fyrnast slík mál á tveimur árum þar sem refsing getur ekki verið þyngri en eitt ár. Er sök hans í því máli því fyrnd.

Sekur um brot gegn börnunum

Varðandi brotin gegn börnunum var hann fundinn sekur um að hafa slegið dætur sínar á fingurna og að hafa lokað þær inni í refsingarskyni. Hann er hins vegar sýknaður af því að hafa slegið eina dótturina í höfuðið.

Í dóminum segir að brot hans hafi beinst „gegn varnarlausum ungum dætrum hans sem upplifað hafa ótta og kvíða í kjölfar brotanna. Misnotaði hann freklega yfirburðastöðu sína gagnvart brotaþolum. Á hann sér engar málsbætur.“

Þar sem maðurinn var sýknaður af verulegum hluta brotanna var honum aðeins gert að greiða þriðjung sakarkostnaðar, en tveir þriðju falla á ríkissjóð.

mbl.is