Mega búast við niðurfellingu heilbrigðisþjónustu

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Barnlausir og heilbrigðir einstaklingar er dveljast ólöglega á landinu og neita að yfirgefa það mega búast við niðurfellingu heilbrigðisþjónustu verði nýtt frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga að lögum.

Þetta segir dómsmálaráðuneytið í athugasemdum sínum um umsagnir um frumvarpið en þær bárust alls 26 um samráðsgátt stjórnvalda. Lagði embætti landlæknis fram umsögn og gerði þar athugasemd við að nauðsynleg heilbrigðisþjónusta félli niður 30 dögum eftir endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd.

Áréttaði ráðuneytið í athugasemdum sínum að ákvæðið, sem er að finna í 6. grein frumvarpsins, heimilaði ekki að fella niður réttindi tiltekinna einstaklinga, svo sem barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna er teldust til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlegra veikra og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir.

Eiga ekki við EES- og EFTA-borgara

Gerði ákvæðið enn fremur ráð fyrir því að heimilt væri að fresta niðurfellingu réttinda teldist slíkt nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða hefði viðkomandi sýnt samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunar um að hann skuli hafa sig af landi brott. Ættu framangreindar undanþágur þó ekki við í þeim tilfellum er umsækjandi væri ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis eða kæmi frá öruggu upprunaríki og umsókn hans því bersýnilega tilhæfislaus í skilningi laganna. Segir svo í athugasemdum ráðuneytisins:

„Umrætt ákvæði frumvarpsins kemur því eingöngu til skoðunar í tilviki barnlausra og heilbrigðra fullorðinna einstaklinga sem dvelja hér á landi í ólögmætri dvöl og neita samvinnu við stjórnvöld við framkvæmd ákvörðunar um að yfirgefa landið. Í því samhengi áréttar ráðuneytið að einstaklingur í þessari stöðu á rétt á margvíslegri aðstoð frá stjórnvöldum við að fara af landi brott, s.s. greiðslu fargjalds og ferðastyrks og eftir atvikum enduraðlögunarstyrks sem getur numið allt að 450 þúsund krónum.“

Það verði að teljast eðlileg krafa að einstaklingur hlíti lögmætum ákvörðunum stjómvalda. Allir umræddir útlendingar hafi hlotið ítarlega meðferð mála sinna hjá stjórnvöldum og notið aðstoðar löglærðs talsmanns í því ferli, talsmanns sem gæti hagsmuna og réttinda viðkomandi.

Hafi niðurstaða stjórnvalda hins vegar verið sú að viðkomandi einstaklingar eigi ekki rétt til verndar á landinu og teljist þar með ekki umsækjendur um vernd lengur með þeim réttindum sem lögin kveða á um.

Beinn kostnaður minnst 300.000 krónur

Segir svo að áætlaður beinn kostnaður við þjónustu við einn útlending, sem fengið hafi endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd, sé að lágmarki um 300.000 krónur á mánuði.

„Að þessu virtu skýtur skökku við að útlendingur, sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vemd en neitar að hlíta þeirri ákvörðun stjórnvalda og með athöfnum eða athafnaleysi sínu kemur í veg fyrir að ákvörðunin komi til framkvæmda, njóti áfram þeirra réttinda sem lög um útlendinga kveða á um, þ. á m. heilbrigðisþjónustu. Hvað varðar EES- og EFTA- ríkisborgara þá eiga þeir ríkan rétt til að setjast að hér á landi og geta nýtt sér slíkar heimildir í samræmi við XI. kafla laganna í stað þess að njóta þjónustu í verndarkerfinu.

Þá eiga einstaklingar frá öruggum upprunaríkjum sem leggja fram umsóknir sem metnar eru bersýnilega tilhæfulausar eðli máls samkvæmt ekki heima í verndarkerfinu og njóta þeirra réttinda sem þar er mælt fyrir um,“ segir í umsögn dómsmálaráðuneytisins.

Athugasemdir ráðuneytisins við umsagnirnar

mbl.is

Bloggað um fréttina