Raunsæ þrátt fyrir „upphrópanir“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við fundarborðið hjá Ríkissáttasemjara. Mikið …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, við fundarborðið hjá Ríkissáttasemjara. Mikið mæðir á Halldóri þessa dagana. mbl.is/Kristinn Magnússon

„SA meta stöðuna góða þrátt fyrir upphrópanir í fjölmiðlum,“ segir meðal annars í mánudagsmolum Samtaka atvinnulífsins í dag.  

Á mánudögum senda samtökin mola á félagsmenn þar sem farið er stuttlega yfir sviðið. 

Nú bera kjaraviðræður hæst eins og gefur að skilja en stór fundur er framundan á morgun með Starfsgreinasambandinu, Verslunarmannafélagi Íslands og Landssambandi verslunarmanna. 

Hugmyndir um aðkomu stjórnvalda eru að myndast og var kominn ágætur samhljómur þar á milli en ekkert fast í hendi.  SA meta stöðuna góða þrátt fyrir upphrópanir í fjölmiðlum,“ segir molaskrifari og en einnig er skrifað að SA gangi raunsæ til viðræðna á morgun. 

Stuttlega er vikið að því að vel gangi í íslensku atvinnulífi. Þar segir að velgengnin sé ekki fordæmalaus heldur sé hagnaðurinn þvert á móti í takti við niðurstöðuna síðasta áratuginn.

Nokkuð hefur borið á umræðu um fordæmalausa velgengni í íslensku atvinnulífi þessi misserin.  Það er vissulega rétt að það gengur víða vel og það sem mestu skiptir að við komumst betur út úr faraldrinum en nokkur þorði að vona. Hins vegar var hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði á síðasta ári í svipuðum takti og síðasta áratug og hagspár benda til þess að svo verði einnig í ár. Getur verið að þessa umræðu megi rekja til þess að fyrirtækin, líkt og heimili, nutu sérstaklega góðs af lágum vöxtum, hóflegri verðbólgu o.s.frv. á síðasta ári? Þessir þættir hafa snúist hratt gegn okkur og því kannski ekki allt sem sýnist.

mbl.is