Safna fyrir 15 ára dreng sem brenndist illa

Sigurgeir fær nú viðeigandi meðferð á sérhæfðri deild í Uppsölum …
Sigurgeir fær nú viðeigandi meðferð á sérhæfðri deild í Uppsölum í Svíþjóð. Ljósmynd/Colourbox

Söfnun hefur verið sett af stað fyrir fjölskyldu 15 ára drengs sem slasaðist alvarlega í síðustu viku og hlaut brunasár á stórum hluta líkamans. Þakka má skjótum og réttum viðbrögðum að ekki fór verr og drengurinn komst undir læknishendur eins fljótt og mögulegt var.

Sigurgeir Sankla Ísaksson, sem búsettur er í Ásbyrgi í Kelduhverfi, var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir slysið og þaðan á sérhæfða deild í Uppsölum í Svíþjóð þar sem hann fær viðeigandi meðferð.

Foreldrar Sigurgeirs, þau Ísak Sigurgeirsson og Senee Sankla, fylgdu syni sínum til Svíþjóðar og munu dvelja þar með honum í að minnsta kosti fimm vikur.

Mikill kostnaður og tekjutap

Það er Jón Ármann Gíslason, sóknarprestur á Skinnastað, sem stendur fyrir söfnuninni og fékk hann leyfi hjá foreldrunum til að ræða ræða málið við mbl.is. Hann segir meðferð Sigurgeirs ganga vel eftir atvikum og er hann á hægum batavegi. Fjölskyldan er þakklát fyrir allar góðar kveðjur og strauma.

Þó batahorfur Sigurgeirs séu taldar góðar á hann langa endurhæfingu fyrir höndum og mun þessu ferli fylgja gríðarlegur kostnaður og tekjutap fyrir foreldrana, að segir í færslu Jóns Ármanns á Facebook. Foreldrarnir reka Verslunina Ásbyrgi, sem þau byggja lífsafkomu sína á. Næstu vikur og mánuði munu þau ekki geta sinnt rekstrinum með eðlilegum hætti. Jón Ármann ákvað því, að höfðu samráði við vini og velunnara fjölskyldunnar, að minna á styrktarreikning prestakallsins.

Hvetur hann alla sem eru aflögufærir til að láta eitthvað smáræði af hendi rakna til fjölskyldunnar til að styrkja þau á þessum erfiðu tímum. Allur peningur sem lagður verður inn á reikninginn rennur óskertur til fjölskyldunnar.

Styrktarreikningur Skinnastaðaprestakalls:

Kennitala: 590269-6119
Banki: 0192-26-30411

 

mbl.is