Suðurnesjamaður sá framtíðina fyrir

Tæplega sáu margir fyrir að Marokkó myndi leggja Belgíu að …
Tæplega sáu margir fyrir að Marokkó myndi leggja Belgíu að velli. Stuðningsmenn Marokkó fagna sigrinum. AFP/Jalal Morchidi

Sérlega getspakur stuðningsmaður Ungmennafélags Grindavíkur mun væntanlega eiga auðveldara með að fjármagna jólahaldið eftir knattspyrnuleikina síðasta laugardag. 

Sá getspaki er af suðurnesjunum samkvæmt tilkynningu frá Íslenskri getspá en hann var með alla þrettán leikina rétta á getraunaseðlinum á laugardaginn. 

Þrítryggði hann reyndar einn leik og þurfti því ekki að spá fyrir um þau úrslit. Tvítryggði hann átta leiki og fjórir leikir voru með einu merki 1, X eða 2. Borgaði hann tæplega 10 þúsund krónur fyrir miðann en krónurnar 9.984 urðu að 2,1 milljón króna. 

Yfir vetrartímann geta tipparar spreytt sig á að spá fyrir um úrslit í ensku knattspyrnunni og hafa gert í áratugi. Njóta íslensku félögin góðs af um leið en alla jafna er um leiki að ræða í tveimur efstu deildunum á Englandi. 

Nú háttar þannig til að lokakeppni HM karla í knattspyrnu stendur yfir og því er ekki leikið í efstu deildum í Evrópu á meðan. Sjö leikir á seðlinum voru í ensku FA bikarkeppninni þar sem lið úr neðri deildunum reyndu með sér en sex leikir á seðlinum voru leikir á HM í Katar. Verður að teljast vel af sér vikið að ná þeim réttum þar sem úrslitin í keppninni hafa nú ekki beinlínis verið eftir bókinni. Sigur Marokkó á Belgíu var til að mynda á seðlinum. 

mbl.is