200 tilkynningar um heimilisofbeldi á mánuði

Tilkynningum um heimiliofbeldi hefur fjölgað.
Tilkynningum um heimiliofbeldi hefur fjölgað. Ljósmynd/Colourbox

Lögreglan fékk 1.787 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrstu níu mánuði þessa árs á landinu öllu. Það jafngildi að meðaltali tæplega sjö slíkum tilkynningum á dag eða 198 tilkynningum á mánuði.

Um er að ræða tæplega 12% aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan og hefur fjöldi tilkynninga til lögreglunnar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila aldrei verið meiri, ef litið er til sama tímabils síðustu sjö ára.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um heimilisofbeldi, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Þegar eingöngu er litið til heimilisofbeldismála, þ.e. tilvika þar sem grunur er um brot á borð við líkamsárásir, hótanir eða eignaspjöll, þá voru tilvikin 832 eða 2,5% fleiri en yfir sama tímabil árið 2021 og rúmlega 4% fleiri en árið 2020 í miðjum heimsfaraldri. Tilkynningum um ágreining milli skyldra/tengdra aðila voru 955 talsins, eða 25% fleiri en yfir sama tíma í fyrra.

mbl.is/Eggert

Karlar í 80% tilfella

Í 78% tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og 67% tilvika var brotaþoli kona.  Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þegar um ofbeldi er að ræða milli maka eða fyrrum maka er 80% árásaraðila karlar og 78% brotaþola eru konur.

Flest tilvik heimilisofbeldis, eða 64% mála voru af hendi maka eða fyrrverandi maka. Málum af hendi maka eða fyrrverandi maka fækkar þó eilítið hlutfallslega og eru mál er varðar heimilisofbeldi vegna fjölskyldutengsla orðin um 30% heimilisofbeldismála.

Aukið ofbeldi foreldra gegn börnum

Mál er varða ofbeldi foreldris í garð barns voru að meðaltali um sex til sjö á mánuði árin 2016-2020, en þeim fjölgaði aðeins í fyrra og voru að meðaltali 11 á mánuði í ár. Þegar horft er til aldurs brotaþola er varðar heimilisofbeldi vegna fjölskyldutengsla eru um 30% þeirra undir 18 ára.  Um 12% árásaraðila í slíkum málum eru undir 18 ára.

91 beiðni barst um nálgunarbann á Íslandi og hefur þeim ekki fjölgað í takt við fjölgun heimilisofbeldismála. Sjaldgæft er að nálgunarbann sé sett vegna barna hér á landi.

Vilja koma í veg fyrir manndráp á heimilum

Úttektin bendir einnig á nauðsyn þess að setja upp kerfi til að yfirfara manndrápsmál á heimilum til að koma í veg fyrir þau í framtíðinni og leysa kerfislega annmarka á mati á áhættu.

Ríkislögreglustjóri hefur haft manndrápsmál á árunum 1999-2020 til skoðunar.  Um 37% manndrápsmála á þessu tímabili eru heimilisofbeldismál og rétt yfir fimmtungur þar sem um var að ræða maka eða fyrrverandi maka.

„Kanna þarf vel þann möguleika að leggja heildstætt mat á þau mál sem hafa komið upp og tengjast heimilisofbeldi. Við þá vinnu þyrfti að horfa til m.a. sambærilegrar vinnu breskra stjórnvalda og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is