„Af hverju líður mér svona vel hérna?“

„Ég held að einn versti óvinur fólks með þennan kvilla sé dót,“ segir fjölmiðlakonan Sigríður Elva í Dagmálum í dag en hún uppgötvaði það fyrir nokkrum árum hversu miklu einfaldara lífið var, verandi með ADHD og marga bolta á lofti, með færri hluti í kringum sig. 

„Ég áttaði mig á því, þegar ég var að gera ferðaþætti, og ferðaðist mjög mikið. Alltaf stuttar er ferðir en þurfti alltaf að vera með nokkur ólík „outfit“,“ lýsir Sigríður sem segist hafa haft með sér sinn eigin ofurskipulagðan „míní fataskáp“ sem komst ofan í hálfa handfarangurstösku á ferðalögunum.

Þarf ekki að róta í gegnum hálft fjall af fötum

„Það passaði allt saman og ekki neitt auka með. Svo var ég með þessa yndislega vel skipulögðu litlu tösku mína á hótelherbergi þar sem var náttúrulega ekki neitt nema það sem maður þarf. Og ég fór að hugsa: Af hverju líður mér svona vel hérna? Það er ekkert. Ég þarf ekki að róta í gegnum hálft fjall af fötum til að finna það sem ég þarf að fara í á morgnanna,“ sagði Sigríður sem fór upp frá því að losa sig við hluti sem hún notaði ekki og einfalda fataskápinn sinn til muna og kom þannig í veg fyrir alls konar flækjustig.

„Þetta eru svona hlutir sem þú getur komið í veg fyrir með því að eiga fimm nákvæmlega eins boli, fimm nákvæmlega eins buxur. Fulla skúffu af nákvæmlega eins sokkum. Þetta hljómar ekkert æðislega skemmtilegt og ég skil alveg að fólk sem hefur ofboðslegan áhuga á að klæða sig upp og svona myndi ekki nenna þessu en trúðu mér þetta einfaldar lífið mjög mikið,“ sagði Sigríður í þættinum

Mikið einfaldara líf

„Maður þarf ekki einu sinni að vera með ADHD til að það sé vesen að vera með drasl í kringum sig. Það segir sig bara sjálft að því meira af dóti sem þú átt, því meiri tíma eyðir þú í að þrífa það, ganga frá því, leita af því sem þig vantar.

Það er ótrúlegt hvað lífið er mikið einfaldara þegar þú ert bara með hlutina sem þú þarft og ekki neitt annað,“ sagði Sigríður og bætti við að það væri einnig afar mikilvægt að hver hlutur eigi heima einhvers staðar.

„Annars fara þeir á flakk og enda í hrúgu eins og vill verða hjá ADHD fólki,“ sagði hún. 

Sjáðu viðtalið við Sigríðu Elvu í heild sinni hér. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert