Óljóst hversu stór hluti rennur til Landspítala

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Arnþór Birkisson

Forstjóri Landspítala tekur fregnum um tillögur að auknum fjárframlögum til heilbrigðismála fagnandi og kveðst vona að þær verði að veruleika. Hann segir takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um hve stór hluti muni koma til með að renna til Landspítalans, verði tillagan samþykkt, en það muni þó líklega skýrast á næstu dögum.

„Þetta er allt saman gríðarlega þýðingarmikið og mun koma sér vel í þeirri erfiðu stöðu sem við og aðrar heilbrigðisstofnanir erum í nú í kjölfar heimsfaraldursins. Við erum enn að glíma við afleiðingar hans ásamt því að faraldurinn er ekki alveg úr sögunni. Staða Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana hefur verið mjög erfið, aðallega vegna manneklu sem hefur verið mjög snúið að eiga við,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.

Tólf milljarða aukafjárveiting til heilbrigðismála

Fjármálaráðherra boðaði í gær tillögur að breytingum við aðra umræðu fjárlagafrumvarps næsta árs í fjárlaganefnd Alþingis. Gert er ráð fyrir rúmlega 12 milljarða króna aukafjárveitingu til heilbrigðismála, þar af 4,3 milljörðum til Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslunnar.

Þá verður lögð til hækkun, m.a. til að skapa svigrúm til að taka upp ný lyf ásamt verkefnum til að auðvelda heilbrigðiskerfinu að glíma við eftirköst kórónuveirufaraldursins. Felur það m.a. í sér að vinna niður biðlista eftir liðskiptaaðgerðum.

Runólfur kveðst ekki hafa upplýsingar um hvernig fjármunum verði skipt á milli stofnana. „Við eigum eftir að sjá nánari sundurliðun og hvort um er að ræða sérstakar fjárveitingar til ákveðinna verkefna og svo framvegis. Við höfum ekki upplýsingar um það.“

Hann gerir þó ráð fyrir að það muni skýrast fljótlega.

„Þessar tillögur eru til fjárlaganefndar og við bara bíðum eftir frekari fregnum af meðförum nefndarinnar á þessum tillögum.“

Endurskoðun á stjórnskipulagi enn í gangi

Skipulagsbreytingar á spítalanum voru boðaðar í síðasta mánuði þar sem markmiðið er að einfalda stjórnskipulag. Stjórn spítalans samþykkti að fella niður störf 6 framkvæmdastjóra og 10 forstöðumanna og ráða í staðinn níu framkvæmdastjóra. Sextán framkvæmdastjórum og forstöðumönnum var í kjölfarið sagt upp og tíu stöður framkvæmdastjóra auglýstar. 

„Það er ráðningarferli í gangi. Við auglýstum ný störf framkvæmdastjóra og það ferli stendur yfir,“ segir Runólfur sem kveðst jafnframt ekki eiga von á því að frekari uppsagnir verði boðaðar á næstunni. „Það stendur ekki til.“

Liggur fyrir hvað þessar breytingar spara spítalanum?

„Það er endurskoðun á stjórnskipulagi spítalans í gangi og við eigum væntanlega eftir að sjá, að einhver störf munu sennilega breytast, en það kemur betur í ljós þegar fram í sækir. Við erum núna fyrst og fremst að vinna í breytingum sem verða á yfirstjórn spítalans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert