Stórframkvæmdir í miðbæ Hafnarfjarðar

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Guðmundur Bjarni Harðarson framkvæmdastjóri 220 …
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Guðmundur Bjarni Harðarson framkvæmdastjóri 220 Fjörður. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum með 31 íbúð, svona lúxusíbúðir þar sem mikið er lagt í allan frágang. Það er ótrúlega gott útsýni þarna, annað hvort yfir sjóinn eða yfir gamla bæinn,“ segir Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri 220 Fjörður, sem byggir hús að Fjarðargötu 13-15 í Hafnarfirði. 

Fyrsta skóflustungan að þessari stórframkvæmd í miðbæ Hafnarfjarðar var tekin kl. 18 í dag þar sem Hafnarfjarðarbíó og Kaupfélag Hafnarfjarðar stóðu áður. Byggingin er teiknuð af ASK arkitektum og í hönnunarteyminu eru Teknik verkfræðistofa, Örugg verkfræðistofa, Voltorka raflagnahönnun, Myrra hljóðstofa og Strendingur ehf verkfræðiþjónusta.

Fyrsta skóflustungan í dag

Fyrstu skóflustunguna tóku þau Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Benedikt Rúnar Steingrímsson og Haraldur R. Jónsson stjórnarmenn 220 Fjarðar ehf.  Byggingarreiturinn hefur verið sameinaður Fjarðargötu 13-15 og áætlað er að framkvæmdir muni taka alla vega tvö ár.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Benedikt Rúnar Steingrímsson og Haraldur R. …
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Benedikt Rúnar Steingrímsson og Haraldur R. Jónsson stjórnarmenn 220 Fjarðar ehf. tóku fyrstu skóflustunguna í dag.

Allt í göngufæri

„Svo verð ég með 18 hótelíbúðir, sem snúa að Strandgötunni,“ segir Guðmundur sem kveður staðsetninguna alveg einstaka, bæði fyrir ferðamenn og íbúa Hafnarfjarðar.

„Íbúðirnar henta mjög vel fyrir einstaklinga sem vilja búa í miðbænum og geta gengið allra sinna ferða og öll þjónusta er til staðar í nærumhverfinu,“ segir Guðmundur. Bílakjallari verður undir húsinu með bílastæðum fyrir íbúa og fyrirtæki, en í húsinu sem er 9000 fermetrar að stærð verða verslanir og þjónusta á jarðhæðinni sem tengir Strandgötuna við verslunarmiðstöðina.

„Á annarri hæðinni verður nútímalegt bókasafn og við höfum miklar væntingar til þess, en þar litum við til hönnunar frá Ósló í Noregi og í Helsinki í Finnlandi og þar verður líka almenningsgarður sem er aðgengilegur frá Strandgötunni.

Á jarðhæðinni stækkar verslunarrýmið og í fyrsta sinn kemur lágvöruverslun í miðbæ Hafnarfjarðar. Byggingin á eftir að styrkja alla verslun mikið hér í bæjarfélaginu. Þessi reitur hefur verið auður í fjöldamörg ár, svo þetta verður mikil bæjarbót.“

Mikill áhugi strax

Guðmundur segir að íbúðirnar verði á stærðarbilinu frá 45 fm og upp í 180 fm. „Við erum líka að horfa til þess að borgarlínan verði hér fyrir framan og stutt í allar áttir. Hann segir þegar að fjöldi fólks hafi haft samband við sig út af íbúðunum, sem ekki eru komnar í sölu.

„Það er greinilega mikill áhugi fyrir íbúðunum og að vera á þessu svæði í hjarta bæjarins,“ segir hann.

Enn meiri þjónusta á bókasafninu

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir bygginguna verða mikla lyftistöng fyrir rekstur og þjónustu í bæjarfélaginu og sé enn einn liður í uppbyggingu skemmtilegs miðbæjarkjarna í Hafnarfirði.

Þegar byggingarframkvæmdir eru hafnar muni áherslan fara í að hanna innviðina, m.a. bókasafnið þar sem gert er ráð fyrir ýmis konar viðbótarþjónustu, eins og aðgangi að þrívíddarprenturum, vínylskerum, saumavélum og upptökuaðstöðu.

Hægt verði einnig að nýta rými safnsins til viðburða, en Hafnfirðingar hafa verið mjög duglegir að sækja Bókasafn Hafnarfjarðar heim hingað og mun það eflaust enn aukast með þessu nýja og fjölbreyttara safni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert