Vilja hafa eigin dyraverði

Gaukurinn, áður Gaukur á Stöng eftir Gauki Trandilssyni, landnámsmanni á …
Gaukurinn, áður Gaukur á Stöng eftir Gauki Trandilssyni, landnámsmanni á Stöng í Þjórsárdal, er mörgum kunnur enda fyrst opnaður 19. nóvember 1983 og hefur hafið margt bílskúrsbandið til vegs og virðingar um dagana. Ljósmynd/Einar Jarl Björgvinsson

„Mér finnst staðan ekkert verri en áður nema kannski fyrir einhverja afmarkaða hópa og varðandi dyraverði hafa þessi dyravarðafyrirtæki verið sjáanlegri núna en áður, en við höfum bara nýtt okkar eigið fólk,“ segir Magnús Bjarni Gröndal, rekstrarstjóri á skemmtistaðnum Gauknum, í samtali við mbl.is um öryggismál, sýnileika lögreglu og stöðuna á næturlífinu.

„Ég get ekki sagt að lögregla hafi verið mjög sýnileg áður, þetta var náttúrulega mjög glæsilegt að sjá núna um helgina og gott að sjá þessa nærveru en ég veit ekki hvort mér finnist endilega að lögregla þurfi að vera rosalega sýnileg í miðbænum,“ heldur Magnús áfram.

„Eini sýnileikinn sem maður tekur eftir er þegar þeir koma í þetta eftirlit, að athuga með leyfi dyravarða til dæmis.“

Kannski minni drykkja

Hann á tæpa tvo áratugi að baki í bransanum og hefur starfað á ýmsum stöðum þann tíma. Telur hann hegðun miðbæjargesta sem eru úti að skemmta sér ekki hafa versnað á hans tíma, þvert á móti raunar.

„Almennt finnst mér hún betri í dag fyrir utan þessa afmörkuðu hópa. Mér fannst ég vera að sjá miklu meiri slagsmál inni á stöðunum fyrir tíu-tuttugu árum. Hinn almenni gestur hagar sér betur bara, kannski er það minni drykkja en mér finnst líka yngri kynslóðin sem er að koma inn í djammið núna vera meðvitaðri um líkamleg mörk til dæmis svo mér finnst ástandið vera að batna almennt,“ segir Magnús.

Magnús Bjarni Gröndal rekstrarstjóri kveður minna um slagsmál inni á …
Magnús Bjarni Gröndal rekstrarstjóri kveður minna um slagsmál inni á stöðunum nú til dags en áður og telur hegðun nátthrafna almennt hafa batnað síðustu ár. Ljósmynd/Gottskálk Daði Bernhöft Reynisson

Hann játar að auðvitað séu alltaf svartir sauðir inn á milli en í heildina finnist honum fólk koma betur fram við náungann. „Ég er mjög sáttur bara, en eins og skemmtistaðaeigendur hafa bent á þá á fólk í erfiðleikum með að komast úr miðbænum eftir lokun,“ nefnir hann sem vandamál. Fólk eigi þá í erfiðleikum með að ná sér í leigubíl og næturstrætó sé hættur að ganga.

„Fólk kemst ekki heim og er bara fast að bíða eftir leigubílum heilu tímana,“ segir Magnús og telur að það ástand sé verra eftir heimsfaraldurinn en fyrir hann. „Þú getur bara gleymt því að ná í leigubíl og fólk er farið að fara fyrr heim til að ná í leigubíl,“ segir rekstrarstjórinn að lokum.

„Lendir auðvitað á algjörum vitleysingum“

Helgi Durhuus er líka rekstrarstjóri á Gauknum. Hann telur kunnáttu dyravarða almennt mun meiri í dag og framkomuna betri.

„Þú lendir auðvitað á algjörum vitleysingum, sérstaklega hjá ákveðnum fyrirtækjum, en svo eru margir staðir með sína eigin dyraverði eins og við á Gauknum. Við erum út úr norminu staður, erum með drag-drottningar og þungamálm svo við leggjum mikið upp úr því að vera með eigin dyraverði sem eru með okkur í liði og eru ekki bara einhverjar górillur til að henda þér út,“ útskýrir Helgi.

Dyravarðahópur Gauksins hafi verið settur saman með það að markmiði að vera samstilltur og algjörlega væri vitað hver gæti sinnt hvaða verkefnum best. „Við erum með reynslubolta sem hafa verið í þessu í tuttugu-þrjátíu ár og þetta er mjög gott teymi hjá okkur,“ leggur rekstrarstjórinn áherslu á.

Helgi Durhuus rekstrarstjóri segir Gaukinn leggja mikið upp úr eigin …
Helgi Durhuus rekstrarstjóri segir Gaukinn leggja mikið upp úr eigin dyravarðateymi auk þess sem vaktstjórar á bar séu með dyravarðaleyfi og dyravörðum sé jafnvel boðið á barþjónanámskeið. Ljósmynd/Gottskálk Daði Bernhöft Reynisson

Enn fremur leggi Gaukurinn mikla áherslu á að vaktstjórar, svo sem vaktstjórar á bar, séu með dyravarðaleyfi. „Þeir kunna þá tökin og eiga auðvelt með að vinna með dyravörðunum. Gegnum tíðina hefur auðvitað komið upp umræða um hver sé þá yfir húsinu hverju sinni, vaktstjóri eða yfirdyravörður, en það sem yfirdyravörður getur auðvitað gert er að hann getur lokað staðnum ef öryggisrof kallar á og vaktstjóri getur ekkert um það sagt.

Af því að svona lagað getur myndað ákveðinn núning trúum við að okkar yfirmenn, hvort sem það er í dyrunum eða á barnum, þurfi að hafa ákveðna vitneskju um báðar hliðar þannig að öllum dyravörðunum okkar er boðið að koma á barþjónanámskeið og allir yfirmenn á barnum fara á dyravarðanámskeið og fá dyravarðaréttindi,“ segir Helgi.

Ólíkur mannskapur eftir dögum ókostur

Hvað sýnist honum um notkun dyravörslufyrirtækja þar sem fyrirkomulagið er að staðir leigi mannskapinn af fyrirtækjum með til þess bær leyfi?

„Ég er ekki hrifinn af því fyrir okkar stað en ég skil mjög vel að stærri fyrirtæki sem eiga kannski fimm til fimmtán staði hafi ekki tök á að vera að mynda þennan svakalega hóp sem þyrfti til að verja þá staði og er þá bara frekar með fyrirtæki í því,“ svarar Helgi sem þó telur vissan ókost að staðirnir séu þá með ólíkan mannskap eftir dögum.

„Þú ert kannski að fá mismunandi menn inn og enginn veit almennilega við hverju er að búast og dyravörðurinn þekkir kannski ekki staðinn almennilega. Mér finnst það bjóða svolítið hættunni heim,“ segir hann enn fremur.

Er hann ánægður með sýnileika lögreglu í miðbænum almennt, ef frá er talin nýliðin helgi?

„Mér finnst honum pínulítið ábótavant en við erum náttúrulega dálítið út úr, við erum niðri við höfn en ekki í Austurstræti, Bankastræti eða á Laugaveginum,“ svarar hann. Honum þyki ekki áberandi að lögregla aki um miðbæinn eða gangi um í hópum við eftirlit. „En við erum svo sem með allt okkar á hreinu og þá tekur maður kannski minna eftir þessu, þetta fellur bara inn í kvöldið, að lögregla hafi komið og fengið að sjá dyravarðaskírteini og haldið svo för sinni áfram. En mér leið rosalega vel með þessa helgi hvað þeir voru sýnilegir,“ tekur Helgi fram.

Neyðast til að vera bar

Hvað með hegðun fólks í skemmtanalífinu? Helgi hefur starfað á skemmtistöðum í rúman áratug.

Hann telur þar um nokkra hópaskiptingu að ræða. Á Gauknum sé fjölbreytt dagskrá og mismunandi hópar, á þriðjudögum séu til dæmis haldin stór karaókíkvöld sem yngra fólk sæki gjarnan en hver hópur hafi í raun sinn vanda. „Fólk er bara misjafnt en hegðun fólks niðri í bæ, svo lengi sem það fer ekki yfir strikið drykkjulega og efnalega, er góð og flestir mjög almennilegir.“

Að lokum tekur Helgi fram að ákveðnir staðir og ákveðnir hópar lendi í leiðinlegum málum og komi jafnvel fram og sverti nafn og áreiðanleika annarra staða.

„Það er synd að við, sem erum eiginlega menningarhús, við erum með 25-30 viðburði á mánuði, neyðumst til að vera líka bar og þannig séð skemmtistaður, flokkunarlega séð, vegna þess að við myndum mun frekar vilja vera bara menningarstaður sem býður upp á viðburði og tónleika alla daga,“ segir Helgi Durhuus rekstrarstjóri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert