14,9 stiga hiti mældist í Kjósinni

Kjós og Hvalfjörður.
Kjós og Hvalfjörður. mbl.is/​Hari

14,9 stiga hiti mældist í Tíðaskarði í Kjós rétt fyrir klukkan sjö í morgun. „Þetta er mjög hlýtt,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, spurður út í þennan óvenjumikla hita á þessum árstíma. Búast má við því að hitinn fari yfir tíu stig á nokkrum veðurstöðvum á landinu í dag.

Ekki er um hitamet að ræða í nóvember á þessu svæði, að sögn Birgis Arnar, sem tekur fram að á landinu öllu sé methiti í nóvember að minnsta kosti 16 stig.

Ástæðan fyrir miklum hita í Tíðaskarði, Blikdalsá og við Hafnarfjall í morgun er sú að mesti vindurinn er þar og kemst hlýja loftið niður án þess að blandast saman við kalda loftið á leiðinni, að sögn Birgis Arnar. 

Hann útilokar ekki að meiri hiti eigi eftir að mælast á landinu í dag. „Það er hlýtt loft að koma hingað úr suðri,“ greinir hann frá. „Veðrið á morgun verður milt en ekki jafnhlýtt. Hlýjasti dagurinn er í dag.“  

Veðurvefur mbl.is

mbl.is