Íslendingur fær leitarniðurstöður ekki fjarlægðar

Google hafnaði beiðni um að fjarlægja leitarniðurstöður um þekktan Íslending.
Google hafnaði beiðni um að fjarlægja leitarniðurstöður um þekktan Íslending. AFP/Kírill Kudryavtsev

Persónuvernd telur að tæknirisinn Google hafi ekki gerst brotlegur þegar hann hafnaði beiðni þekkts Íslendings um að fjarlægja leitarniðurstöður þar sem fjallað er um meint einelti hans á vinnustaðnum.

Að mati stofnunarinnar vegur réttur almennings til upplýsingar þyngra en einkalífshagsmunir kvartanda. Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að m.a. sé horft til atvinnu kvartanda og hlutverki hans í þjóðlífinu. Var niðurstaðan sú að réttur almennings til upplýsingafrelsis myndi víkja til hliðar rétti kvartanda til að gleymast.

Ekki kemur fram við hvað einstaklingurinn starfar eða hver hann er. Þá var úrskurðurinn  ekki birtur í heild sinni á heimasíðu Persónuverndar í ljósi þess að þar koma fram nákvæmar upplýsingar um kvartanda, jafnvel þó persónuauðkenni væru afmáð. 

Umfjöllunin þjóni almannahagsmunum

Á vef Persónuverndar kemur fram að einstaklingur hafi kvartað yfir birtingu leitarniðurstaðna í leitarvél Google er vísuðu á greinar sem fjölluðu um hann og meint einelti sem hann átti að hafa viðhaft á vinnustað sínum.

Google LLC hafnaði beiðninni á grundvelli þess að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki til kynna að ásakanirnar í greinunum væru rangar. Þá voru greinarnar enn þá taldar þjóna almannahagsmunum enda stutt síðan málið var í umræðunni og tengdist umfjöllunin störfum kvartanda.

Niðurstaða Persónuverndar varð sú að hagsmunir almennings af því að hafa aðgang að hlutaðeigandi upplýsingum yrðu taldir vega þyngra en einkalífshagsmunir kvartanda. 

Var vinnsla Google á persónuupplýsingum um kvartanda ekki talin brjóta í bága við lög.

mbl.is