SGS og SA funda klukkan 13 – VR og LÍV ekki með

Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) og Samtök atvinnulífsins (SA) funda með ríkissáttasemjara klukkan 13 í dag. Ekki er gert ráð fyrir fundi SA, VR og Landssambands íslenskra verzlunarmanna (LÍV) í dag. 

Þrátt fyrir að VR og LÍV komi ekki að samningaborðinu í dag er þétt dagskrá hjá embætti ríkissáttasemjara.

Samningslausir í tæplega þrjú ár

Fundur er hafinn hjá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) fyrir hönd flugmanna Landhelgisgæslunnar og samninganefnd ríkisins (SNR). Áætlað er að honum ljúki klukkan 11.30. Kjarasamningur flugmanna Gæslunnar rann út 31. desember 2019.

Klukkan 10 hófst einnig fundur hjá samfloti iðn- og tæknifólks, sem eru öll félög iðnaðarmanna, og SA. Áætlað er að þeim fundi ljúki klukkan 18 í kvöld.

Klukkan 13 er þá komið að SGS og SA og áætlað er að sá fundur standi til klukkan 18, að minnsta kosti á heimasíðu ríkissáttasemjara, en hvað raungerist er óvíst. 

13 klukkustunda fundi fulltrúa LÍV, SGS, VR og SA lauk rétt fyrir klukkan 23 í gærkvöldi í Karphúsinu, en átti hann að standa til klukkan 18.

mbl.is