„Svona virkni setur mann alltaf upp á tærnar“

Í venjulegu árferði er meiri skjálftavirkni í Kötlu seint á …
Í venjulegu árferði er meiri skjálftavirkni í Kötlu seint á sumrin og á haustmánuðum. mbl.is/Sigurður Bogi

Jarðvísindamaður segir skjálftana í Mýrdalsjökli að öllum líkindum tengjast árstíðabundinni skjálftavirkni sem sé seinna á ferðinni í ár en vanalega.

Skjálftarnir komi iðulega fram síðla sumars og á haustmánuðum en hlýtt veðurfar í nóvember, með tilheyrandi bráðnun og hækkandi grunnvatnsstöðu, hafi gert það að verkum að Katla skjálfi enn á aðventunni. 

„Grunnvatnsþrýstingurinn, hann hækkar þegar það fer að aukast bráðnunin og meira vatn er í jarðveginum, sem gerist þegar að það fer að líða á sumarið. Og það er það sem við höldum að valdi þessari árstíðabundnu sveiflu í Kötlu og svipað er að gerast núna,“ segir Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, sér­fræðing­ur á sviði jarðskorpu­hreyf­inga hjá Veður­stof­u Íslands.

Þrátt fyrir það sé þó útilokað að fullyrða nákvæmlega um skýringu skjálftanna.

„Ef menn muna aðeins lengra aftur í tímann þá var [Katla] mjög virk á hverju einasta sumri og langt fram eftir veturinn. Og þetta er lítið miðað við það sem þetta hefur verið 2011 til 2013 og svo 2017. Þetta er nú bara frekar algengt að Katla hagi sér svona.“

Óljóst hvenær Katla gaus síðast

Síðasta staðfesta eldgos úr Kötlu var árið 1918. Einhverjir hafa þó haldið því fram að eldstöðin hafi gosið tvisvar síðan þá, annars vegar árið 1945 og hins vegar árið 2011, þegar að stór hlaup komu undan jöklinum.

„Katla hefur verið að gjósa á fimmtíu til hundrað ára fresti þannig að svona virkni setur mann alltaf upp á tærnar.“

En þegar það hefur gosið í Kötlu, er það oftast að gerast á þessum árstíma?

„Mig minnir að ég hafi séð einhverja úttekt á því að það sé algengast að hún gjósi á haustin. En það er ekki algilt. En virknin er mjög bundin við síðla sumar og fyrri part vetrar. Við höldum að það tengist vatnsþrýstingsbreytingum.

Það er alveg þekkt að þrýstingur í grunnvatni geti triggerað skjálfta. Vatnsþrýstingurinn minnkar viðnámið á sprungum þannig það þarf minna til að það fari.“

mbl.is