Tvöfalt fleiri vilja fara utan í aðgerð

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjúkratryggingar Íslands spá því að 328 muni sækja um á þessu ári að leita sér meðferðar erlendis. Ástæðan er langur biðtími eftir aðgerð á Íslandi. Í fyrra bárust 164 slíkar umsóknir og því talið að fjöldi umsókna muni tvöfaldast á milli ára. Sjúkratryggingar gera ráð fyrir auknum fjölda umsókna í desember og byrjun næsta árs í ýmsum aðgerðarflokkum, vegna lengri biðtíma. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Ítarleg sundurliðun fylgdi varðandi þær umsóknir sem afgreiddar hafa verið á þessu ári. Umsóknir vegna efnaskiptaaðgerða eru orðnar 128 og allar vegna ferða til Svíþjóðar. Afgreiddar hafa verið 28 umsóknir vegna liðskipta á hné ýmist í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Hollandi, Belgíu eða á Spáni. Afgreiddar umsóknir um liðskipti á mjöðm eru orðnar 30 vegna ferða til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs eða Þýskalands. Þá hafa verið afgreiddar 29 umsóknir vegna annarra meðferðarflokka og er mest farið vegna þeirra til Norðurlanda, en líka Þýskalands, Belgíu, Spánar og Hollands.

Kort/mbl.is

Sjúkratryggingar kveðast sjá stöðugan vöxt í umsóknum um meðferð erlendis vegna biðtíma eftir að fá slíka meðferð hér á landi. „Umtalsverð aukning hefur orðið á hverju ári og svo er einnig í ár. Þegar biðlistar innanlands lengjast má gera ráð fyrir því að fleiri sæki um meðferð erlendis. Í áætlunum sínum gera SÍ ráð fyrir áframhaldandi verulegri aukningu í þessum málaflokki, að því gefnu að ekki verði unnið á biðlistum.”

Algengast er að leitað sé til Norðurlandanna í aðgerðir, þótt hægt sé að leita til allra landa innan EES. Algengasti aðgerðarflokkurinn nú eru efnaskiptaaðgerðir (t.d. magaermi), en liðskipti koma þar á eftir.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert