Ákveða næstu skref í kvöld

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

„Það liggur alveg fyrir að það er pattstaða,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um samningslotu félagsins við Samtök atvinnulífsins.

Ragnar segir í samtali við mbl.is að samninganefnd VR komi saman í kvöld og þar verði tekin ákvörðun um næstu skref. „Það er í rauninni allt búið að vera á yfirsnúningi hjá okkur að fara yfir stöðuna og undirbúa næstu skref sem eru fjölmörg,“ segir Ragnar um vinnuna sem fram hefur farið í hans herbúðum síðan ákveðið var að slíta viðræðum við SA fyrir helgi. 

Enn fremur segir hann að staðan sé í raun sú sama og þegar ákveðið var að slíta viðræðum. Fundur með ríkissáttasemjara í gær hafi ekki breytt neinu þar um.

Á ekki fund með ríkissáttasemjara

Ragnar segist ekki hafa verið boðaður á fund með ríkissáttasemjara í dag, sem fallið var frá með litlum fyrirvara. Hvorki sé í kortunum fundur með SA né ríkissáttasemjara hjá VR.

Ragnar segir að verkefnið fram undan hjá VR sé að upplýsa sína félagsmenn og almenning um „hvernig staðan raunverulega er“. 

Fordæmalaust góðæri

„Það er alltaf verið að tala um það að hér sé svo mikil óvissa; að hér hafi geisað heimsfaraldur og stríðsátök í Evrópu. En raunveruleikinn er allt annar. Óvissan er hjá heimilum landsins, hjá fólkinu sem er að borga af húsnæðislánum sem hafa rokið upp úr öllu valdi, við sjáum eldsneyti, tryggingar, gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga,“ segir Ragnar.

„Óvissan er hjá fólkinu en það þarf ekki miklar greiningar til að sjá hver staðan er í atvinnulífinu. Þar er fordæmalaust góðæri. Við höfum aldrei séð þetta áður, í öllum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum þannig að svigrúmið er til staðar. En það er eitt að hafa svigrúm til að gera eitthvað og það er annað að ná utan um þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert