„Auðvitað eru allir miður sín“

Málið snertir tvö börn í skólanum.
Málið snertir tvö börn í skólanum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Hér hefur skólastarfið verið með eðlilegum hætti í dag en auðvitað eru allir miður sín,“ segir Helena Katrín Hjaltadóttir, skólastjóri Dalskóla í Úlfarsárdal, í samtali við mbl.is.

Síðdegis í gær réðst karlmaður með öxi á fyrrverandi eiginkonu sína fyrir framan skólann. Konan særðist töluvert í árásinni en líðan hennar er ágæt miðað við aðstæður, að sögn lögreglu.

Árásin átti sér stað á þeim tíma þegar foreldar voru að sækja börn sín í frístund, þannig að bæði foreldrar og börn urðu vitni að árásinni, ásamt starfsfólki. Í tölvupósti sem sendur var til foreldra í gær kom fram að atvikið snerti tvö börn við skólann og var hvatt til nærgætni í umræðu um málið.

Helena segir starfsfólki hafa verið boðið upp á aðstoð sálfræðinga og hafa öll aðgang að þeirri þjónustu í skólanum.

Bjóða upp á ráðgjöf og samtöl við sálfræðing

„Svo hafa foreldrar aðgang að sálfræðingi og félagsráðgjafa til að fá ráðleggingar um hvernig er best að tala við börnin. Þetta boð stendur áfram, það verður alltaf hægt að komast í þá aðstoð hér og við erum til staðar,“ segir Helena.

Foreldrar geta bæði fengið ráðgjöf sérfræðinga til að ræða sjálfir við börn sín og fengið samtal hjá sálfræðingi fyrir börnin, telji þeir þörf á því.

„Þó börnin hafi ekki orðið vitni þá er kannski umræða um málið og það er gott fyrir fólk að vita hvernig best er að ræða þessi mál. Við bjóðum upp á ráðgjöf við það.“

Helena tekur fram að um einangrað atvik hafi verið að ræða og að sambærilegt mál komi vonandi aldrei upp aftur, en öryggismál við skólann verði að sjálfsögðu skoðuð.

Maðurinn sem réðst á konuna var handtekinn í gær og hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Árásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert