„Kæmi á óvart ef mönnun yrði vandamál“

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia segir áskorun að taka á móti þeim 7,8 milljónum ferðamanna sem spáð er að muni fara um Keflavíkurflugvöll á næsta ári. Hann segir dreifingu á komu ferðamanna innan dagsins vera breytta. Ekki er eins mikið álag á álagspunktum innan dagsins eins og árið 2018 sem var metár í íslenskri ferðaþjónustu. Hann segir að það myndi koma sé á óvart ef mönnun yrði vandamál.

„Það verður áskorun að taka á móti þessum mikla fjölda ferðamanna. Breytingin frá því árið 2018 er sú að við erum ekki að fá eins mikið álag á þessa álagspunkta innan dagsins. Ástæðan er sú að flugfélögin eru farin að dreifa sér betur yfir daginn en hápunktarnir eru þegar Play fer fyrst á morgnanna og Icelandair aðeins seinna. Einnig er morgunbankinn, brottfarir í kringum 10 til 13, að byggjast upp sem var byrjaður að byggjast upp á árunum fyrir faraldur,“ segir Sveinbjörn.

Öflugt starfsfólk tekur vertíðina

Aðspurður hvort mönnun sé ekki áskorun og hvort Isavia sjái fram á fjölgun stöðugilda segir Sveinbjörn að ágætlega hafi tekist að manna stöður í sumar. Hann segist ekkert endilega sjá fram á að mönnunarvanda inn í næsta ár.

„Okkur tókst ágætlega að manna stöður í sumar og ég sé ekkert endilega fyrir mér að það geti orðið mikið vandamál inn í næsta ár. Við fáum öflugt sumarstarfsfólk til þess að taka kúfinn með okkur og höfum við aðgengi að mjög öflugu starfsfólki sem hefur verið að taka vertíðina með okkur. Það kæmi mér á óvart ef það yrði vandamál,“ segir Sveinbjörn.

Fundurinn var vel sóttur af fólki í ferðamannageiranum.
Fundurinn var vel sóttur af fólki í ferðamannageiranum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farþegar munu finna fyrir framkvæmdum

Nú standa yfir mikl­ar fram­kvæmd­ir á Kefla­víkurflug­velli, bæði við stækk­un flug­stöðvar­inn­ar og gerð nýrra ak­brauta til og frá flug­braut­um til að bæta flæði flug­véla til og frá flug­stöðinni. Aðspurður um áhrif framkvæmdanna segir Sveinbjörn að þeir sem muni fara um flugvöllinn á næsta ári muni finna fyrir framkvæmdunum.

„Það sem hefur verið að gerast og gerðist í sumar var að framkvæmdir voru skipulagðar miðað við ákveðinn farþegafjölda en á endanum skiluðu sé miklu fleiri farþegar. Þetta bjó til fjölmargar áskoranir sem kallar á betri samvinnu innan fyrirtækisins,“ segir Sveinbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert