Miklum breytingum spáð og vetur í kortunum

Kólnað gæti á landinu næstu daga.
Kólnað gæti á landinu næstu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miklum breytingum er spáð í veðurkerfum Norður-Atlantshafs á næstunni.

Kröftugu háþrýstisvæði er spáð næstu daga, sem opnar fyrir heimskautaloft úr norðri og þar með kólnar í veðri, en síðustu vikur hafa einkennst af háloftalægð fyrir suðvestan Ísland. 

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá þessu á veðurvefnum Bliku en í samtali við mbl.is segir hann að hitastig gæti orðið í kringum frostmark næstu daga. 

Frost og þurrt loft

„Þegar hættir að koma til okkar loft úr suðri – við erum bara þannig staðsett á hnettinum – ef það aðstreymi er aftengt, þá kólnar landið undir stjörnubjörtum himni,“ segir hann.

„Þetta er gjarnan þannig þegar það er svona háþrýstisvæði án þess að það komi kalt loft með – það er ekkert kalt loft að berast úr norðri – þá kólnar inn til landsins og verður frost þar, en við frostmark og sums staðar alveg frostlaust úti við sjóinn og á annesjunum,“ segir hann.

Bætir hann við að ekki sé spáð snjókomu. 

„Þetta er bara frost og þurrt loft.“

Opnar fyrir aðstreymi að köldu lofti

Einar segir að háloftahæðinni fylgi ekki endilega norðanátt og kalt heimskautaloftslag. 

„En stundum lýkur svona kafla með því að hæðin sækir í áttina að Grænlandi og þá opnast fyrir aðstreymi að köldu lofti úr norðri. Það eru sumar langtímaspár sem gera ráð fyrir því undir næstu helgi.“

Hann segir að því gæti stefnt í meiri vetur hitafarslega séð en hefur verið.

„En birtulega séð er auðvitað klárlega vetur. Það dimmir snemma og það er óskaplega dimmt þegar hvergi er snjór yfir.“

Vetrarveður í Norður-Evrópu

Einar nefnir að veðurfræðingar erlendis fylgist afar grannt með fyrirstöðuhæðinni, eða svokallaðri Grænlandsblokk, þar sem að svona veðurlagi fylgir stundum gríðarlegur kuldi í Evrópu. 

„En það er ekkert endilega alveg víst núna.“

Spurður hvaða afleiðingar háloftahæðin hefur í álfunni segir Einar að hún gæti þýtt talsvert vetrarveður í Norður-Skandinavíu. Hins vegar verði hlýtt við Vestur-Grænland.

„Það verður vetrarveðrátta í Norður-Evrópu með svona veðurlagi. Alla vega norðantil í Evrópu, ég veit ekki hversu sunnarlega kuldinn kemur til með að ná.“

mbl.is