Olli skemmdum og hótaði starfsfólki

Lögreglan á ferðinni í miðbæ Reykjavíkur.
Lögreglan á ferðinni í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Ari

Lögregla var kölluð að hóteli í Reykjavík vegna gests sem hafði valdið skemmdum á herbergi. Hann hafði einnig í hótunum við starfsfólk.

Málið er í rannsókn, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem greint er frá því helsta frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í nótt.

Kona var vistuð í fangageymslu eftir umferðaróhapp. Hún er grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna. Engin slys urðu á fólki.

Þrír handteknir vegna ölvunar

Þrír ökumenn voru handteknir vegna gruns um ölvun við akstur milli klukkan eitt og tvö í nótt og svo annar upp úr klukkan fjögur.

Lögregla var kölluð til vegna rifrildis á milli fólks í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ. Ekki var þörf á inngripi lögreglu.

Tilkynnt var um grunsamlegar mannaferðir í umdæminu. Menn voru sagðir taka myndir af húsum en fundust ekki.

Handtekinn vegna brots á vopnalögum

Einn var handtekinn í umdæminu eftir uppákomu við öldurhús. Hann var vistaður í fangageymslu, m.a. vegna brots á vopnalögum. Hann var ekki viðræðuhæfur sökum ölvunar.

Maður var handtekinn vegna vímuástands og ónæðis í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Hann var vistaður í fangageymslu.

mbl.is