Óyggjandi sannanir sýna aðra atburðarás

Frá vettvangi málsins.
Frá vettvangi málsins. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Þórður Már Jónsson, verjandi sakborningsins Árnmars Jóhannesar Guðmundssonar í skotárásarmálinu frá því í fyrrasumar á Egilsstöðum, segir óyggjandi sannanir þess efnis að skýrslur yfirvalda um atburðarás á vettvangi hafi ekki verið sannleikanum samkvæmar.

Kveðst hann vonast til að Landsréttur komist að annarri niðurstöðu en héraðsdómur og mildi dóminn yfir Árnmari.

Vilja sýknu í dómi fyrir manndrápstilraunir

Í dag fór aðalmeðferð málsins fram fyrir dómi í Landsrétti, þar sem Þórður segir að reynt verði að fá niðurfelldar sakir um tilraunir til tveggja manndrápa, en í héraði féll dómur þannig að Ármar var dæmdur í 8 ára fangelsi fyrir til tvær tilraunir til manndráps, á fyrrverandi eiginmanni sambýliskonu sinnar og á lögreglumanni.

Var hann einnig dæmdur til að greiða sonum fyrri sambýliskonu sinnar tvær milljónir auk málskostnaðar.

Árnmar neitaði meintum ásetningi um manndráp í héraði og sagðist hafa ætlað að hræða en ekki drepa. Hann krefst því sýknu fyrir Landsrétti. Miskabætur sonanna samþykkti hann án athugasemda.

Skýtur viðstöðulaust fyrir horn

„Það kemur alveg skýrt fram í rannsókninni að bæði Árnmar og lögreglan skutu af byssum sínum á nákvæmlega sömu sekúndunni,“ segir Þórður Már.

„Eini munurinn er að Árnmar skýtur þremur skotum en lögreglumaðurinn skýtur ellefu á aðeins fjórum sekúndum. Lögreglan er í vari á bak við bíl og með skjöld, svo hann hefur skotið bara viðstöðulaust án þess að horfa á hvað hann væri að skjóta,“ segir Þórður Már og bætir við að allt sem hafi komið fram í dómssal í dag styðji það að lögreglan hafi orðið fyrri til að hleypa af.

„Hann hefur bara sett höndina fyrir horn bílsins og skotið meðfram bílnum og það sést að skotin hafa skautað eftir rúðum bílsins, sem sýnir að hann hefur allur verið bak við bílinn, og ég tel útilokað að maðurinn hafi verið að miða.“

Hann segir fleira í skýrslu yfirvalda ekki standast þegar farið er yfir atburðarásina.

Húsið sem skotið var á í Dalseli á Egilsstöðum.
Húsið sem skotið var á í Dalseli á Egilsstöðum. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Málsatvik 26. ágúst 2021

Engar upptökur eru frá skotárásinni sem varð á Egilsstöðum fimmtudagskvöldið 26. ágúst í fyrra, en lögregla fékk tilkynningu um skotmann á heimili í Dalseli sem væri vopnaður byssu. 

Þórður Már hefur farið fram á rannsókn á því hvers vegna engar upptökur séu til staðar, þar sem minnst er á þær í gögnum málsins.

Árnmar fór ölvaður og vopnaður byssu inn á heimili þáverandi sambýliskonu sinnar í Dalseli, en þar var hún heima við með sonum sínum tveimur.

Þar hafði hann frammi ógnandi tilburði, en atburðarásinni lauk u.þ.b. klukkustund síðar, þegar Árnmar fór út úr húsinu og var skotinn í kviðinn. Hann var þá fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Ekki hafið yfir skynsamlegan vafa

Þórður Már segir dóminn í héraði hafa verið alltof þungan. Árnmar hafi verið samvinnufús og gengist við því sem hann sannarlega var sekur um. Síðan sé í besta falli afar vafasamt að dæma Árnmar fyrir manndrápstilraun á manni sem var ekki á staðnum.

„Það er byggt á því að ef hann hefði verið á staðnum, hefði Árnmar skotið hann,“ segir Þórður Már sem telur þau rök ekki standast nánari skoðun þegar tillit er tekið til skynsamlegs vafa.

„Það blasir líka við að það stenst ekki allt í skýrslu lögreglunnar eftir athugun og með ólíkindum að umræddur lögreglumaður hafi ekki dregið framburð sinn til baka, þegar sannað er að atburðarás er ekki eins og skýrslan tilgreinir. Síðan heldur hann því líka fram að Árnmar hafi vaðið út á móti sér skjótandi, en ekkert á vettvangi styður þá fullyrðingu og óyggjandi sönnunargögn um hið gagnstæða.“

Þórður Már segir að það verði að taka tillit til þessara misfærslna og að lýsingin í skýrslunni gefi mynd af miklu ofbeldisfyllri framkomu en Árnmar í reynd hafi sýnt.

„En svo sýnir þetta líka að lögreglumaðurinn var ekkert að horfa heldur skaut bara út í loftið.“

Samvinnufús og sýnt iðrun

Þórður Már segir að mestu skipti að fá sýknu fyrir báðar tilraunirnar til manndráps. „Auðvitað er verið að ákæra hann fyrir hættubrot og hótanir og húsbrot og fleira. Hann gengst alveg við því og fær þungan dóm fyrir það.“

Hann bendir á að Árnmar hafi allan tímann verið samvinnufús og iðrast framkomu sinnar. Hann hafi hreina sakaskrá og að það ætti að taka tillit til þess líka.

Andleg líðan Árnmars sé þokkaleg miðað við aðstæður. „Hann á aldrei ná sér fullkomlega eftir þetta byssuskot, það liggur alveg ljóst fyrir.“

Búist er við að dómur falli í málinu í Landsrétti innan fjögurra vikna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert