Rangt að samið sé um 20 þúsund kr. hækkun

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir rangar upplýsingar koma fram á Samstöðinni um stöðu samninga hjá félagi hans og Samtaka atvinnulífsins.
Þar er því haldið fram að samningar séu svo til klárir.

„Aðeins er deilt um hversu mikið eigi að flýta 13 þús. kr. hagvaxtaraukanum sem er lokahnykkur lífkjarasamningsins. Samið hefur verið um 20 þús. kr. hækkun lægri launa og svo prósentuhækkun upp að 40 þús. kr. hækkun. Og hækkun starfsaldursþrepa sem eru mest rúmar 12 þús. en meta má á rúm 8 þús. kr. að meðaltali,“ segir á vef Samstöðvarinnar.

Vilhjálmur segir tölurnar sem þarna liggi að baki séu ekki réttar og að mörgu leyti sé útfærslan einnig röng.

Til þess fallið að eyðileggja

Að öðru leyti vildi Vilhjálmur ekki tjá sig um þar sem fram kemur á vef Samstöðvarinnar, sem ritstýrt er af sósíalistaforingjanum Gunnari Smára. Hann segir það sem þar komi fram vera til þess fallið að eyðileggja þá vinnu sem sem hann leggur sig fram við, við samningaborðið.
„Í mínum huga er verið að reyna að afvegaleiða,“ segir hann. „Að reyna að telja fólki trú um að verið sé að semja um 20 þúsund króna launahækkun – það er alrangt.“

Hann segist hafa fengið góðan nætursvefn sem ekki veitti af fyrir verkefni dagsins.
Hann ásamt samninganefnd Starfsgreinasambandsins funda með ríkissáttarsemjara og Samtökum atvinnulífsins í dag. „Við verðum bara að sjá hvað dagurinn ber í skauti sér,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur Birgisson og Halldór Benjamín Þorbergsson.
Vilhjálmur Birgisson og Halldór Benjamín Þorbergsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gætu þurft að semja aftur í september

Hann ítrekar í samtali við mbl.is að hann sé að vinna fyrir lágtekjufólk sem ekki þoli mikla bið þegar kemur að hærri framfærslu. „Ég legg áherslu á að þetta fólk fái launahækkanir eins fljótt og verða má. Ég tek þeirri ábyrgð ofboðslega alvarlega að það takist. Það er að gagna í garð jólahátíð, þess vegna legg ég áherslu á að það sé hægt að koma launahækkunum út til okkar fólks.“

Hann segir það grundvallaratriði að skilningur sé fyrir því að um skammtímasamning ræði. Hann segir að gangi samningar eftir þurfi að setjast aftur niður í september til að undirbúa næsta samning.

„Í mínum huga má engan tíma missa í að koma hækkunum út til fólksins, vegna kostnaðarauka sem það hefur orðið fyrir.“

Er ekki að semja um prósentuhækkanir

Spurður út í fréttaflutning af blönduðum hækkunum, það er bæði krónutöluhækkunum og prósentuhækkunum, segir Vilhjálmur alveg skýrt að hann fari fram á krónutöluhækkanir.

„Prósentuhækkanir gera ekkert annað gagnvart lágtekjufólki en að auka misskiptingu, ala á óréttlæti og auka ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Þannig að það hefur aldrei staðið til hjá Starfsgreinasambandi Íslands að semja um prósentur.“
Vilhjálmur segist þó ekki gera neinar athugasemdir við hvernig aðrir hagsmunahópar semja fyrir hönd sinna félagsmanna. „En ég er ekki að semja um prósentur gagnvart lágtekjufólki, það bara liggur fyrir.“

mbl.is