Rannsaka árásina sem tilraun til manndráps

Árásin átti sér stað í gær þegar foreldrar voru að …
Árásin átti sér stað í gær þegar foreldrar voru að sækja börn sín í frístund. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Karlmaður sem réðist með öxi á fyrrverandi eiginkonu sína fyrir framan Dalskóla í Úlfarsárdal síðdegis í gær, hefur verið úrskurðaður í viku gæsluvarðhald.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Árásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps.

„Svona árás með áhaldi er rannsökuð sem tilraun til manndráps. Það er haft svoleiðis undir í rannsókninni,“ segir Grímur.

Konan særðist töluvert í árásinni að sögn Gríms en líðan hennar er ágæt miðað við aðstæður.

Snertir tvö börn í skólanum

Árásin átti sér stað þegar foreldrar voru að sækja börn sín í frístund og voru því bæði foreldrar og börn vitni að atvikinu, ásamt starfsfólki.

Í tölvupósti sem skólastjóri Dalskóla sendi foreldrum í gær kom fram að atvikið snerti tvö börn í skólanum og var hvatt til nærgætni í umræðu um málið. Þá var tekið fram að boðið yrði upp á ráðgjöf eða samtal við sálfræðing og félagsráðgjafa innan skólans, fyrir þá sem vildu nýta sér það.

Grímur segir að haft hafi verið samband við barnavernd vegna málsins og verður það unnið áfram með þeim, eins og ávallt þegar um börn er að ræða.

mbl.is