Fundi frestað í Karphúsinu

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundi í kjaradeilu SGS, samflots iðn- og tæknimanna og SA hefur verið frestað. Ríkissásttasemjari hefur boða til nýs fundar á morgun. Hann segir í samtali við mbl.is að tíma samningsaðila í dag sé betur varið í að funda í eigin röðum. 

„Ég ákvað í morgun að höfðu samráði við samningsaðila að það væri ekki fundur hjá ríkissáttasemjara í dag. Að tíma þeirra væri betur varið í fundi á sínum heimavelli og við myndum hittast síðan hér á morgun klukkan eitt,“ sagði Aðalsteinn í samtali við mbl.is í Karphúsinu. Allir hefðu verið sammála um að þetta væri skynsamleg ákvörðun og þannig myndi tíminn nýtast betur.

„Stundum þarf aðeins að skipta um gír og brjóta hlutina upp og gera hlutina aðeins öðruvísi. Og við notum daginn í dag í þá vinnu,“ sagði hann enn fremur. 

Aðalsteinn segir að margir aðrir fundir eigi sér stað í Karphúsinu. Fólk haldi áfram að funda í dag með fólki. 

Spurður út í stöðu VR í kjaraviðræðunum segir Aðalsteinn að fulltrúar VR hefðu komið á fund sl. þriðjudag. „Mér þótti mjög vænt um það að þau brugðust vel við því fundarboði og komu hingað og við áttum góðan fund. Síðan er ég að sjálfsögðu í sambandi við formann VR. Við eigum mjög góð samtöl,“ segir ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.

mbl.is