Þriðjungur stjórnenda vill fjölga starfsfólki

Áfram verður mikil eftirspurn eftir vinnuafli.
Áfram verður mikil eftirspurn eftir vinnuafli. mbl.is/Eggert

Töluverð spenna er á vinnumarkaði en þriðjungur stjórnenda vill fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum samkvæmt könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins.

Um 8.800 störf voru laus á þriðja ársfjórðungi en hlutfall lausra starfa hefur ekki mælst hærra á kjarasamningstímabilinu en á öðrum og þriðja ársfjórðungi ársins 2022. 

Þetta kemur fram í haustskýrslu kjaratölfræðinefndar.

Atvinnuleysi hefur haldið áfram að minnka með haustinu og var 3% á höfuðborgarsvæðinu í október 2022 og 2,3% á landsbyggðinni. Þá er slaki á vinnumarkaði rúmlega 9% af samanlögðu vinnuafli og mögulegu vinnuafli. 

Það er með því lægsta sem mælst hefur frá því að Hagstofan hóf að meta slaka á vinnumarkaði. 

Innflytjendur 22% af starfandi

Fyrirséð er að áfram verði eftirspurn eftir vinnuafli og að henni verði að miklu leyti mætt með erlendu vinnuafli.

Innflytjendur voru 22% af starfandi í október 2022 en hlutfallið hefur nær tvöfaldast frá 2015.

Til marks um þessa fjölgun voru um 40% starfandi í sjávarútvegi og einkennandi greinum ferðaþjónustu innflytjendur á haustmánuðum 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert