Veikindi hrossanna mjög staðbundin

Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun, telur ekki ástæðu til …
Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun, telur ekki ástæðu til að óttast um önnur hross í landinu, veikindin sem hér um ræðir séu mjög staðbundin. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta eru staðbundin veikindi og engin ný tilfelli,“ segir Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun, í samtali við mbl.is um óþekktan sjúkdóm sem upp kom í hópi hrossa á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku og fjallað var um hér á vefnum í gær.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvað þetta er enn þá en það er verið að vinna á fullu í málinu,“ heldur Sigríður áfram og bætir því við að hrossin á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu tengist svo ekki sé um að ræða veikindi sem komi upp á tveimur stöðum á landinu án tengsla þar á milli.

„Við höfum nú þegar útilokað ýmislegt en þetta er örlítið snúið svo ég get engu lofað um hvenær það liggur fyrir hvað þetta nákvæmlega er,“ segir dýralæknirinn og kveðst ekki telja um neina hættu að ræða fyrir hesta í landinu almennt, þekkt tilfelli séu mjög staðbundin.

mbl.is