„Þetta eru mestu hagræðingaraðgerðir hjá borginni frá hruni og löngu tímabær tiltekt inni í kerfinu,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn í samtali við mbl.is um hagræðingartillögur meirihlutans.
„Við erum að horfast í augu við vandann. Hallinn af rekstri A-hlutans er einfaldlega allt of mikill. Hann skýrist af mörgum utanaðkomandi þáttum eins og öll sveitarfélög og ríkið finna fyrir núna, eins og heimsfaraldrinum og verðbólgu. Tímabært er að fara í verkefnabundna hagræðingu til að bæta undirliggjandi rekstur borgarinnar. Við beittum þeirri aðferðafræði að setja flata hagræðingarkröfu á öll svið, líka á skrifstofur borgarstjóra, borgarstjórnar og borgarritara. Allir sættu þessari sömu hagræðingarkröfu á laun. Rekstur er ekki verðbættur og í því felst mjög stíf hagræðingarkrafa upp á líklega 1,4 milljarða,“ segir Einar og bendir á að meirihlutinn hafi óskað eftir tillögum og hugmyndum frá sviðum borgarinnar varðandi hagræðinguna.
„Við báðum sviðin innan borgarinnar um að senda okkur tillögur upp að 2,5 milljörðum króna og var því deilt hlutfallslega niður á stærð sviða. Var það gert til að fá fjölbreyttar hagræðingartillögur og markmiðið var að sækja að lágmarki 1 milljarð til viðbótar við þessa flötu hagræðingu. Við erum að taka þennan milljarð og erum með umbótatillögur í þessum pakka sem þarf að rýna og útfæra en þær geta kannski skilað 300-400 milljónum til viðbótar. Vonandi á næsta ári og geta skilað hagræðingu til framtíðar. Samanlagt eru þessar aðgerðir sem við erum að ráðast í fyrir árið 2023, ríflega 3,1 milljarður.
Á þriggja ára tímabili náum við 15 milljarða hagræðingu í rekstri borgarinnar. Eru þetta mestu hagræðingaraðgerðir í sögu borgarinnar frá hruni og löngu tímabær tiltekt inni í kerfinu. Þessari aðferðafræði hefur ekki verið beitt áður í borginni og byggjast á tillögum frá sviðunum með það að markmiði að vernda framlínuþjónustuna, skólana, velferðarþjónustuna og þá sem höllum fæti standa. En það gefur augaleið að þegar hallinn er svona mikill, og hagræðingarkrafan er svona stíf, þá felur það í sér þjónustuskerðingu í lífi borgaranna að einhverju leyti. Við erum að tryggja að það sé ekki í mikilvægustu grunnþjónustunni og lögbundnum skyldum sveitarfélagsins.“
Einar tekur við af Degi B. Eggertssyni sem borgarstjóri eftir rúmt ár samkvæmt samkomulagi flokkanna sem mynda meirihluta. Óttast Einar að hann taki við erfiðu búi?
„Ég bjóst alla vega ekki við því að fyrsta stóra verkefni mitt í borgarstjórninni yrði að ráðast í mestu hagræðingaraðgerðir í Reykjavík frá hruni. Staðan er ekki góð. Ég bjóst við krefjandi verkefni vegna þess 3,8 milljarða halla sem var á rekstri borgarinnar um síðustu áramót. Það er ekki gaman að vera nýkjörinn fulltrúi og fá þetta verkefni í fangið en það er sama hver hefði verið kjörinn, viðkomandi hefði fengið þessa stöðu í fangið. Nú er bara að sinna þessu af ábyrgð og ráðast í þessa hagræðingu þannig að borgarbúar finni sem minnst fyrir þessu,“ segir Einar og bætir því við að um leið sé hollt að velta fyrir sér hvort fara megi aðrar leiðir í rekstri borgarinnar.
„Við nýtum tækifærið til að rýna hvort við séum sums staðar að gera of mikið. Hvort verið sé að veita fjármunum í verkefni sem kannski væri hægt að leysa annars staðar, til dæmis hjá frjálsum félagasamtökum. Nú er tímabært að skoða kerfið gaumgæfilega og velta við hverjum steini til að sjá hvort við séum á réttri leið. Það erum við að gera og þess vegna erum við að skila 92 hagræðingartillögum eftir ígrundaða vinnu. Ég er ánægður með að geta náð svona miklum árangri í hagræðingu án þess að kollvarpa þjónustunni við borgarana.“
Einar bætir því við að sveitarfélögin sinni mjög kostnaðarsömum málaflokkum lögum samkvæmt. „Málaflokkur fatlaðra er stórlega vanfjármagnaður. Hallinn í þeim málaflokki hjá borginni er kominn yfir 8 milljarða á þessu ári. Það verður að leiðrétta þetta og innviðaráðherra hefur stigið fyrsta skrefið í fjárlagafrumvarpinu með því að setja 5 milljarða í málaflokkinn á næsta ári. En mun meira þarf til og sveitarfélögin um allt land eru að sligast vegna þeirra miklu þjónustu sem þeim er gert að sinna en fá ekki tekjustofnana til að standa undir þeim,“ segir Einar Þorsteinsson.