Facebook refsaði fyrir Hitlers-færslu

Dögg Hjaltalín, til hægri, ásamt Önnu Leu Friðriksdóttur, útgefanda hjá …
Dögg Hjaltalín, til hægri, ásamt Önnu Leu Friðriksdóttur, útgefanda hjá Sölku. Ljósmynd/HAG

Facebookfærsla Sölku um nýjustu bók Vals Gunnarssonar, Hvað ef?, hefur dregið dilk á eftir sér fyrir bókaforlagið.

Í færslunni var bókakápan sett inn og minnst á Hitler, enda fjallar bókin meðal annars um hvað hefði gert ef Hitler hefði unnið seinni heimsstyrjöldina. Þetta féll ekki í kramið hjá samfélagsmiðlinum.

Fyrir vikið var aðgangurinn að facebooksíðu Sölku takmarkaður næstu 30 dagana og ná færslur forlagsins mun minni útbreiðslu en venjulega. Í stað þess að ná til nokkurra þúsunda ná þær til í mesta lagi eitt hundrað, að sögn Daggar Hjaltalín, framkvæmdastjóra Sölku, sem sé bagalegt í miðju jólabókaflóði.

Ef forlagið brýtur reglur Facebook enn frekar verður aðganginum lokað.

Kápa bókarinnar Hvað ef?
Kápa bókarinnar Hvað ef?

„Þetta er mjög óheppilegt. Við auglýsum mikið á samfélagsmiðlum. Eins erum við með bókabúðina og alls konar viðburði í gangi. Við erum með bókakvöld á miðvikudögum og á morgun er Lóu-dagur [vegna útgáfu bóka Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur]. Það þarf að gera þetta handvirkt í staðinn,“ segir Dögg, sem bjóst ekki við þessum viðbrögðum frá Facebook.

„Algóritminn segir nei“

Hún nefnir að forlagið sé með sjónvarpsauglýsingu í bígerð þar sem Hvað ef? er auglýst. Lesið verður undir hana, en væntanlega mun tónlist hljóma í staðinn fyrir lesturinn þegar auglýsingin birtist á Facebook, bara til öryggis.

Forlagið hafði samband við Facebook út af straffinu og óskaði eftir endurskoðun. Þar er þó enginn starfsmaður að vinna í málinu heldur gerast hlutirnir sjálfvirkt þar á bæ. „Algóritminn segir nei og þá er það bara nei,“ segir Dögg, sem vonar að allt falli aftur í ljúfa löð eftir 30 daga. 

mbl.is