Fækka megi ráðum borgarinnar

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn.
Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn. Ljósmynd/Dagmál

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, segir að fækka megi ráðum hjá Reykjavíkurborg til að minnka kostnað. Hún er gagnrýnin á ýmislegt í tillögum meirihlutans en er fylgjandi öðru eins og stækkun gjaldskyldu. 

Barnafólk með mestu útgjöldin

„Auðvitað er fínt að fara í hagræðingu og spara til lengri tíma. Það er bara ábyrgur rekstur og við eigum alltaf að skoða hvernig hægt sé að ná jafnvægi og hætta skuldasöfnun. Nú er verið að segja að skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sé hlíft en mér finnst einmitt að verið sé að seilast ofan í vasa þeirra sem reiða sig alfarið á þjónustu borgarinnar og þurfa á henni að halda. Þar má til dæmis nefna barnafólk og fólk sem nýtir sér velferðarþjónustuna. Oft er þetta fólk sem er með mestu útgjöldin. Fólk sem er að koma undir sig fótunum, er að borga af húsnæðinu sínu, er með börn á leikskóla eða grunnskóla og í frístund. Gera hefði mátt betur í að hlífa þessum hópum. 

Ég held að borgin geti gert miklu betur í að lækka álögur til að henda ekki á þetta verðbólgubál sem er framundan. Við þurfum ekki alltaf að seilast í vasa borgaranna. Alls ekki. Það er alla vega mín sýn,“ segir Líf.

Eitt af því sem finna má í tillögum meirihlutans er stækkun gjaldsvæða bílastæða í miðbænum. 

„Ég hef lengi talað fyrir því að stækka gjaldskylduna af því að afnot af borgarlandinu á ekkert að vera ókeypis. Ég er því alveg samþykk tillögu að stækka gjaldskylduna og mun sjálf leggja fram tillögu um að hækka gjöld þegar bílum er lagt í stæði. Einnig finnst mér tillaga um að afnema niðurgreiðslur á bílastæðum fyrir borgarstarfsmenn vera þörf tillaga. Ég lagði þetta til þegar ég var í meirihluta en þá var ekki hægt að gera þetta.“

Lækka megi fjárframlög til stjórnmálaflokka

Líf segir að skoða megi ýmislegt fleira til að spara í borginni. 

„Ég mun leggjast á árarnar með þeim [meirihlutanum] en mun einnig benda á það sem ég tel að þau hefðu getað gert betur eins og að frysta styrkjapotta borgarinnar. Ég held líka að skoða mætti starfsumhverfi okkar. Til dæmis held ég að fækka megi ráðum borgarinnar og spara með því launakostnað.

Einnig mætti skoða aðrar og betri leiðir varðandi íbúaráðin þannig að við náum betra verklagi í kringum lýðræðislega þátttöku fólks í verkefnum borgarinnar. Eitt og annað mætti nefna eins og fundarkostnað hjá sviðunum eða lækka fjárframlögin til stjórnmálaflokkanna. Þau eru núna 24 milljónir og er lögbundið verkefni en talan þarf ekki að vera svona há,“ segir Líf í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert