Lagði til að laun borgarfulltrúa hækki ekki

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti sósíalista í Reykjavík.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti sósíalista í Reykjavík. mbl.is/Ágúst Óliver Erlingsson

Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í borgarstjórn, veltir fyrir sér hvers vegna laun borgarfulltrúa eigi að hækka á næsta ári þegar ráðast þarf í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir hjá Reykjavíkurborg. 

„Meirihlutinn hefur kallað eftir hagræðingaraðgerðum og við sósíalistar lögðum til að laun okkar borgarfulltrúa og fyrstu varaborgarfulltrúa myndu ekki hækka á næsta ári. Með því hefði borgin sparað 29 milljónir árið 2023.  Ekki var vilji til að skoða það og mér finnst svolítið sérstakt að kalla eftir hagræðingu en það megi alls ekki skoða okkur laun sem eru mjög há í samanburði við marga sem vinna hjá borginni,“ segir Sanna og hún er ekki sammála áherslum í tillögum meirihlutans. 

„Okkar hlutverk er að standa vörð um grunn- og nærþjónustu en í þessum tillögum er alls staðar verið að klípa af og leggja fram hagræðingartillögur þar sem ætti alls ekki að skera niður. Til dæmis í þjónustu við börn en minna fjármagn fer í matarþjónustu fyrir börn í leikskólum. Ég hef áhyggjur af því að matarframleiðslan verði færð fjær börnum enda hljómar ekki vel að ná hagræðingu í matarþjónustu við lítil börn sem þurfa að borða næringarríkan mat. Auk þess er minna fjármagn í tækja- og áhaldakaup í leikskólum og grunnskólum en þetta eru stoðir sem við ættum að standa vörð um. Við getum líka skoðað þetta út frá stöðu ungmenna og hjá Vinnuskólanum á til dæmis að minnka fræðslu og námskeið hjá vinnuskólanum. Ég get líka nefnt að leggja á niður Vin dagsetrið en það er fyrir fólk með geðraskanir. Í staðinn eiga félagsmiðstöðvar að taka á móti fólkinu en svo kemur fram að borgin sé að skoða að fækka þessum félagsmiðstöðvum. Mér sýnist að verið sé að kroppa í ýmislegt sem við ættum ekki að kroppa í og óttast að þetta geti skapað fleiri vandamál sem við þurfum að bregðast við seinna meir. “

Barist fyrir útsvari á fjármagnstekjur

Sanna Magdalena segir að sósíalistar muni leggja til að borgarstjórn berjist fyrir því að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur. „Okkur sósíalistum finnst að borgarstjórn eigi að vinna að því að sækja fjármagn til þeirra sem eru ekki að borga til samfélagsins eins og varðandi útsvar á fjármagnstekjur. Að ríkasta fólkið greiði meira og við eigum að berjast fyrir því,“ segir Sanna. Telur hún að stemning sé fyrir því í borgarstjórn?

„Ég vona það svo innilega. Þetta er alla vega ekki útgjaldatillaga enda bara viljayfirlýsing og hvar er viljinn? Þetta hefur verið til umræðu í þinginu og við viljum senda þau skilaboð að þetta eigi við alla fjármagnseigendur, óháð því hvort þeir séu að fá einhverjar launatekjur eða ekki,“ segir Sanna Magdalena í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert