Ræðst í dag hvort viðræðum verði slitið

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS).
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS). mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), segir í samtali við mbl.is að í dag muni ráðast hvort sambandið haldi áfram kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA). 

„Ég er svona sæmilega stemmdur. Ég tel þetta vera ögurstundu sem við stöndum frammi fyrir núna, hvort menn nái saman eða allavega fari á þann stað að það sé hægt að halda áfram með þessar viðræður eða ekki,“ segir hann en samningafundir hefjast klukkan eitt í dag hjá ríkissáttasemjara. 

Vilhjálmur segir því að runnin sé upp ákveðin úrslitastund. 

„Annaðhvort skilja leiðir eða þá að það verður hægt að halda áfram að vinna saman. Hvort það taki síðan 10 tíma eða 24 tíma eða 36 tíma, það er kannski ekki aðalmálið. Hvort að við þyrftum alla helgina til að klára það.“

Krónur og aurar

„Aðalmálið er að ég tel að ögurstundin liggi í því hvort við séum yfirhöfuð að halda áfram þeirri vinnu,“ segir hann og bætir við að hingað til hafa kjaraviðræður hjá SGS gengið sæmilega.

„Það hafa átt sér stað ágætar umræður en það á eftir að loka þessu. Þetta er aldrei búið fyrr en þetta er búið. Þetta er ögurstund.“

Spurður hvaða atriði samningsviðræðurnar hanga helst á segir Vilhjálmur að í skammtímasamningi snúist allt um krónur og aura.

„Í skammtímasamningi þar sem að stefnt er að því að hefja viðræður aftur í september á næsta ári, þá lítur þetta að launaliðnum og að mæta þessum kostnaðarhækkunum sem að okkar félagsmenn hafa þurft að þola á liðnum misserum. Þær eru gríðarlegar. Þannig að við þurfum að vinna að því að fólk geti dregið úr þessum miklu kostnaðarhækkunum.“

Ekki alltaf með græðgina að vopni

Hann segir að stýrivextirnir og húsaleiguverð spili þar stórt hlutverk. 

„Það er mikið af lágtekjufólki á leigumarkaði og í 9,3% verðbólgu þá hefur það mikil áhrif á hækkun á húsaleigu. Þetta hefur haft gífurleg áhrif á fólk. Stýrivextirnir, matarverðið, eldsneytisverðið og það er alveg ljóst að þessir aðilar verða að gjörðu svo vel – afsakið orðbragðið – að drullast til þess að taka þátt í að ná niður kostnaði hér en ekki vera alltaf með græðgina að vopni, að auka hjá sér framleiðnina, auka hjá sér hagnaðinn og ætlast til þess að launafólk eitt og sér beri alla ábyrgð. Slíkt verði ekki unað,“ segir Vilhjálmur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert