Slá óvænt í gegn á Tinder

Arnaldur Indriðason og Kristín Eiríksdóttir standa í ströngu í jólabókaflóðinu. …
Arnaldur Indriðason og Kristín Eiríksdóttir standa í ströngu í jólabókaflóðinu. Auglýsingar fyrir bækur þeirra hafa vakið athygli á stefnumótaforritinu Tinder.

„Ég hafði ekki hugmynd um að Forlagið væri að auglýsa jólabækurnar á stefnumótaforriti. Það kom mér því gersamlega í opna skjöldu að heyra að við hefðum slegið í gegn á þeim vettvangi,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.

Egill fundaði í vikunni með ráðgjafa fyrirtækisins í birtingarmálum en Forlagið auglýsir víða í jólabókaflóðinu, í dagblöðum, á vefsíðum og að því er kom á daginn á stefnumótaforritinu Tinder.

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, kveðst aldrei hafa farið inn …
Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, kveðst aldrei hafa farið inn á Tinder en er sáttur við velgengni höfunda sinna þar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við auglýsum úti um allt á veraldarvefnum og notfærum okkur meðal annars Google-auglýsingar sem birtast á ýmsum heimasíðum og öppum. Eitt þeirra er Tinder-appið,“ segir Egill sem komst að því að innan um stefnumótaauglýsingar hafi undanfarið birst töluvert af auglýsingum vegna jólabóka Forlagsins. 

„Það kom svo í ljós öllum að óvörum, þar með talið ráðgjafanum, að árangur Forlagsins í auglýsingum á Tinder er að minnsta kosti tífaldur miðað við það sem þekkist,“ segir framkvæmdastjórinn og vísar í það hversu oft notendur bregðast við auglýsingunum og kynna sér hvað þar er að baki. 

„Það má því segja að Forlagið hafi slegið í gegn á Tinder. Þegar betur var að gáð kom í ljós að þeir höfundar sem vakið höfðu mestan áhuga inni á stefnumótaforritinu voru Arnaldur Indriðason og Kristín Eiríksdóttir. Hvað á að lesa í það þori ég ekki að segja til um en ég hef sjálfur aldrei farið inn á þetta forrit. Annað sem kom á daginn við nánari eftirgrennslan var að áhuginn var langsamlega mestur hjá 65 ára og eldri meðal notenda stefnumótaforritsins,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hann kveðst annars hæstánægður með jólabókavertíðina það sem af er og þessi nýi vettvangur hafi reynst skemmtileg viðbót. „Mér finnst þetta undirstrika áhuga Íslendinga á bókum á þessum árstíma og kemur í kjölfar þess að bækur og spil voru valin jólagjafir ársins af Rannsóknasetri verslunarinnar í gær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert