Eldur í verksmiðju á Akureyri

Upptök eru talin hafa verið vél í verksmiðjunni.
Upptök eru talin hafa verið vél í verksmiðjunni. Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á Akureyri var kallað út er eldur kviknaði í álþynnuverksmiðjunni TDK Foil, sem er til húsa að Krossanesi 4 á Akureyri. Allir á frívakt voru kallaðir út, alls komu því um 30 manns að slökkvistörfunum. 

Alls tóku slökkvistörf um 40 mínútur, en að sögn Gunnars Rúnars Ólafssonar, sitjandi slökkviliðsstjóra, fór betur en á horfðist. 

Alelda framleiðsluvél mætti slökkviliðsmönnum þegar þeir komu á vettvang. Nákvæm eldsupptök eru óþekkt. Mikill reykur varð auk þess sem mikið rafmagn var á vélinni. Þá má ekki sprauta vatni á álþinnur, líkt og þær sem vélin framleiðir, og voru slökkvistörf því snúnari en ella. 

Hópur fólks var við vinnu þegar eldurinn kviknaði. Sjúkrabílar voru kallaðir út til að hlúa að fólkinu, ýmist vegna áfalls eða vegna reykeitrunar. Ekki kom þó til þess að flytja þyrfti nokkurn mann á sjúkrahús. 

Vélin er gjörónýt auk þess sem eitthvað af framleiðsluefninu spilltis, að sögn Gunnars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert