Ferðamálastofa hlaut hvatningarverðlaun ÖBÍ

Eliza Reid forsetafrú afhenti verðlaunin í dag.
Eliza Reid forsetafrú afhenti verðlaunin í dag. Ljósmynd/ÖBÍ

Ferðamálastofa hlaut hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) árið 2022, sem voru veitt á Grand hótel í Reykjavík í dag í tilefni af alþjóðadegi fatlaðs fólks.

Ferðamálastofa hlýtur verðlaunin í ár fyrir verkefnið „Gott aðgengi í ferðaþjónustu“.

Verkefnið ýtir undir þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðlar að einu samfélagi fyrir alla – og er í senn metnaðarfullt og tímabært. Með framsýni stuðlar Ferðamálastofa að nýrri nálgun og hugsunarhætti í ferðaþjónustu á landsvísu. Strax í upphafi hafði stofan frumkvæði að því að leiða saman ólíka aðila til samstarfs og tryggja þannig gæði verkefnisins,“ segir í tilkynningu frá ÖBÍ.

Eftirfarandi aðilar voru tilnefndir til verðlaunanna í ár:
  • Arna Sigríður Albertsdóttir fyrir vitundarvakningu, hreyfingu og íþróttaiðkun fatlaðs fólks.
  • Harpa Cilia Ingólfsdóttir fyrir framlag til aðgengismála fatlaðs fólks.
  • Helga Eysteinsdóttir fyrir náms- og starfsendurhæfingu fatlaðs fólks.
  • Ingi Þór Hafsteinsson fyrir frumkvæði að veiðiferðum fatlaðra barna.
  • Piotr Loj fyrir þjálfun og upplifun fyrir fatlað fólk í gegnum sýndarveruleika.
  • Rannveig Traustadóttir fyrir framlag til réttindabaráttu fatlaðs fólks.
  • Sylvía Erla Melsted fyrir vitundarvakningu lesblindra.
Hópmynd af þeim sem voru tilnefndir og forsetafrúnni.
Hópmynd af þeim sem voru tilnefndir og forsetafrúnni. Ljósmynd/ÖBÍ
mbl.is