Grímuklæddur maður framdi rán

Nokkuð var um að menn tækju hluti ófrjálsri hendi í …
Nokkuð var um að menn tækju hluti ófrjálsri hendi í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grímuklæddur maður framdi rán í verslun í hverfi 108 í gær. Gekk hann inn í verslunina, tók fjármuni úr sjóðsvél og hljóp svo út. 

Jafnframt var tilkynnt um þjófnað á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Yfirhöfn var stolið, með nýlegum farsíma, frá gesti staðarins. Verðmæti muna er talið rúmlega 400 þúsund krónur. 

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn, grunaður um húsbrot. Var hann vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. 

Neitaði að gefa upp nafn eða kennitölu

Þá voru afskipti höfð af manni á veitingastað í miðbænum, sem var í tökum dyravarða er lögregla kom á vettvang. Maðurinn var í annarlegu ástandi og sýndi af sér ógnandi tilburði við lögreglu. Var hann því handtekinn. 

Maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglu og neitaði aðspurður af gefa upp nafn eða kennitölu. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu,“ segir í dagbók lögreglu. 

Tilkynnt var um þjófnað úr íþróttaverslun og voru afskipti höfð af tveimur mönnum sem voru komnir út úr versluninni með hluti sem þeir höfðu ekki greitt fyrir. Vörunum var skilað og vettvangsskýrsla rituð.

mbl.is