Hringdi dyrabjöllu og réðst á húsráðanda

Þrjár líkamsárásir voru tilkynntar í nótt.
Þrjár líkamsárásir voru tilkynntar í nótt. mbl.is/​Hari

Lögregla var kölluð til vegna manns sem hafði hringt dyrabjöllu og ráðist á húsráðanda, þegar sá opnaði dyrnar. Var maðurinn farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði, en nafn hans er vitað. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Tilkynnt var um aðra líkamsárás í hverfi 104 og þá þriðju í miðbæ Reykjavíkur. Áverkar þess sem ráðist var á í miðbænum eru óþekktir, en áverkar hins árásarþolans voru minni háttar. 

Bifreið var stöðvuð eftir að hafa verið ekið yfir gatnamót á rauðu ljósi. Ökumaður er grunaður um ölvunarakstur, en hann hafði ekki tendrað ökuljósin við aksturinn. Önnur bifreið var stöðvuð þar sem ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, og ítrekaðan akstur eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum. 

Einn maður var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur, grunaður um vörslu eða sölu fíkniefna. Var sá vistaður í fangageymslu vegna rannsóknarhagsmuna. Þá voru afskipti höfð af manni í Mosfellsbæ vegna ræktunar fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert